Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

Japanskur blaðamaður í heimsókn

24.04.2018

Næstu Ólympíuleikar munu fara fram í Tókýó í Japan árið 2020. Japanir eru á fullu að undirbúa leikana og leggja þeir mikið upp úr umhverfisvitund og sjálfbærni í tengslum við allt sem viðkemur leikunum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ólympíuleikarnir eru haldnir í Japan, því árið 1964 fóru leikarnir fram í Tókýó höfuðborg Japan.

Á dögunum kom Mr. Inagaki, blaðamaður frá Asahi Shimbun, japönsku dagblaði sem er eitt af stærstu dagblöðum heims með um sex milljón lesendur, í heimsókn til ÍSÍ til að fræðast um íslenska íþróttahreyfingu. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, tóku á móti Inagaki, ásamt þremur af þeim fjórum Ólympíuförum sem tóku þátt í leikunum árið 1964. Það voru þau Guðmundur Gíslason og Hrafnhildur Guðmundsdóttir sem kepptu í sundi og Jón Ólafsson sem keppti í frjálsíþróttum. Þau áttu skemmtilegt spjall við blaðamanninn og sýndu honum myndir frá þátttöku þeirra í leikunum. Blaðamaðurinn var afar ánægður með að hitta Ólympíufarana og heyra af þeirra ævintýrum í Tókýó. Fannst honum afar athyglisvert að heyra hversu virk þau hafa verið í starfi íslensku íþróttahreyfingarinnar eftir að ferli þeirra lauk. Hann vonast til að hitta þau öll á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2020.

Vefsíða leikanna er tokyo2020.org

 
 

Myndir með frétt