Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Ný viðbygging við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum

02.05.2018

Í byrjun apríl var skrifað undir samninga um hönnun nýrrar viðbyggingar við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Stefnt er að því að þar rísi nýtt íþróttahús hannað út frá þörfum fimleika og frjálsíþrótta. 

Aðalhönnuður hússins er Anna María Þórhallsdóttir og verkfræðistofurnar Efla og Mannvit sjá um aðra hönnunarþætti svo sem á burðarvirki, lögnum og rafkerfum. Einar Andrésson, svæðistjóri á Austurlandi, skrifaði undir samninga fyrir hönd verkfræðistofunnar Eflu og Ágúst Þór Margeirsson, verkefnastjóri, fyrir hönd verkfræðistofunnar Mannvits. Einnig var skrifað undir samning við Svein Jónsson um verkefnistjórnun við hönnun og útboð.

María Ósk Kristmundsdóttir, formaður byggingarstjórnar Hattar segir hönnun og verkefnastjórn hússins vera í góðum höndum þessa fagfólks og að mikill styrkur sé að fá þau til starfa við verkefnið.

Í mars mánuði voru teknar prufu holur fyrir tilvonandi grunn og unnið var með niðurstöður úr þeim mælingum. Stefnt er að því að hönnun ljúki núna á vormánuðum og gögn til útboðs verði tilbúin í byrjun sumars. Framkvæmdir á ákveðnum verkþáttum gætu því hafist síðar á þessu ári. Búið er að vinna nokkrar tillögur að útliti og útfærslum sem skoðaðar verða áfram með sveitarfélaginu næstu vikurnar.

Íþróttafélagið Höttur skrifaði undir samning við sveitarfélagið Fljótsdalshérað á síðasta ári um þessa framkvæmd og er stefnt að því að taka húsið í notkun árið 2020. Samhliða þessu verður farið í framkvæmdir er tengjast búningaaðstöðu, starfsmannaaðstöðu og breytingu á innra skipulagi íþróttamiðstöðvarinnar enda muni nýr íþróttasalur breyta nýtingu núverandi húsnæðis til muna og skapa rými fyrir fjölbreyttari íþróttaiðkun.

Lesa má nánar um verkefnið á vefsíðu Hattar www.hottur.is