Ólympíudagurinn 23. júní
Þann 23. júní nk. er Alþjóðlegi Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim og er það í sjötugasta sinn sem dagurinn er haldinn. Hann er haldinn í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar 23. júní árið 1894. Þá má segja að Ólympíuleikar til forna hafi verið endurvaktir og færðir til nútímans. Markmiðið með deginum er að hvetja fólk til að koma saman, hreyfa sig og hafa gaman, en dagurinn er í raun ætlaður öllum óháð íþróttalegri getu. Meginþema í tengslum við daginn eru þrjú: Hreyfa, læra og uppgötva. Á deginum er kjörið að spreyta sig á ýmiss konar íþróttum og þrautum, en ekki einungis íþróttum sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Ólympíudagurinn er einnig kjörinn vettvangur til að kynna gildi Ólympíuhreyfingarinnar sem eru; vinátta, virðing og ávallt að gera sitt besta.
Í tilefni 70 ára afmælisins hratt Alþjóðaólympíunefndin af stað herferðinni „United By“, sem ætlað er að sameina reynslusögur og viðburði hvaðanæva að úr heiminum sem tengjast Ólympíuhugsjóninni. Myndbandið sem búið var til af því tilefni má sjá hér fyrir neðan í fréttinni.
ÍSÍ hvetur sérsambönd, íþróttafélög og frístunda- og tómstundanámskeið til þess að taka þátt í Ólympíudeginum, allt frá því að vera með einn dag sem Ólympíudag eða heila viku sem Ólympíuviku. Upplýsingar og fræðsluefni er að finna á vefsíðu ÍSÍ undir „Ólympíudagurinn“. Þeim sem taka þátt í Ólympíudeginum stendur ýmislegt til boða, til dæmis að fá lánaðan afmælisfána ÍSÍ með Ólympíuhringjunum og geta flaggað í tilefni dagsins, viðurkenningarskjöl fyrir sína þátttakendur og heimsókn frá íslensku íþróttafólki úr fremstu röð. Íslendingar eiga frábært íþróttafólk sem stefnir hátt og á Ólympíudeginum er gott tækifæri til að kynna afreksíþróttafólk og afreksíþróttir fyrir ungu fólki.
Frekari upplýsingar veita: Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri ÍSÍ (alvar@isi.is) og Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ (ragnhildur@isi.is).