Hlaupið með Ólympíueldinn mun hefjast í Fukushima
Undirbúningur fyrir Ólympíuleikana í Tókýó gengur vel en nýlega funduðu fullrúar Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) með skipuleggjendum leikanna þar sem megináhersla var lögð á úttekt á þeim mannvirkjum sem notuð verða fyrir keppni á leikunum. Staða mannvirkja í Tókýó er góð og er nú þegar farið að keyra íþróttaviðburði í sumum mannvirkjunum. Japanir munu nota jafnt ný mannvirki sem og eldri og endurbætt fyrir viðburði leikanna.
Skipuleggjendur Ólympíuleikanna í Tókýó hafa tilkynnt að hlaupið með Ólympíueldinn (The Olympic Torch Relay) um Japan muni hefjast í Fukushima en hlaupið verður með Ólympíueldinn um 47 héruð í Japan. Fukushima varð illa úti í stóra jarðskjálftanum og flóðbylgjunni sem honum fylgdi árið 2011 og hafa skipuleggjendur unnið að því að staðurinn njóti góðs af undirbúningi og framkvæmd Ólympíuleikanna, t.d. með því að hefja hlaupið þar en einnig með því að skipuleggja nokkra íþróttaviðburði í héraðinu. Hlaupið hefst 26. mars 2020 og mun standa yfir í 121 dag. Hlaupinu með Ólympíueldinn er ætlað að byggja upp eftirvæntingu fyrir leikana og koma á framfæri ólympískum gildum en til viðbótar er því ætlað að vekja og sýna samstöðu með þeim héruðum sem urðu illa úti í hamförunum árið 2011, undir slagorðinu „Vonin lýsir okkur leið”.
Lukkudýr leikanna hafa verið valin en nöfn þeirra verða tilkynnt síðar í júlímánuði, þegar tvö ár verða þar til leikarnir verða settir í Tókýó árið 2020. Skipuleggjendum hafa haft að leiðarljósi að sem flestir í Japan komi með einhverjum hætti að undirbúningi leikanna og voru það skólabörn frá yfir 80% allra skóla í Japan, eða alls 16.769 skólum, sem völdu lukkudýr leikanna úr nokkrum tillögum.