Norrænn fundur í Visby
Nú síðastliðna helgi fór fram árlegur fundur íþrótta- og ólympíusamtaka á Norðurlöndum. Fundurinn var haldinn í bænum Visby á Gotlandi. Þátttakendur ÍSÍ í fundinum voru Sigríður Jónsdóttir varaforseti, Gunnar Bragason gjaldkeri, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri, Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ. Samhliða þessum fundi var haldinn fundur um íþróttir fatlaðra og sérstakur fundur um ólympísk málefni. Fulltrúar Íþróttasambands fatlaðra voru Þórður Árni Hjaltested formaður og Ólafur S. Magnússon framkvæmdastjóri.
Mörg áhugaverð efni voru á dagskrá fundarins og voru tvær yfirlýsingar samþykktar, önnur er varðar hagræðingu úrslita í íþróttakeppnum og hin um íþróttir fatlaðra. Nánari umfjöllun um yfirlýsingarnar verður að finna hér á fréttasíðunni innan skamms. Fjallað var um framtíðarsýn íþróttarheyfingarinnar, fyrirkomulag varðandi félagsaðild, jafnréttismál, #metoo málefni, lyfjaeftirlit, íþróttapólitík í Evrópu, rafíþróttir og norræna leiðtogamenntun, svo eitthvað sé nefnt. Fundir sem þessir eru afar gagnlegir en samstarf þjóðanna er víðtækt, ekki síst hvað varðar fræðslumál og við undirbúning og framkvæmd ólympískra verkefna.