Viðurkenningar vegna Drangeyjarsunds
Uppskeruhátíð Sundsambands Íslands fór fram um síðastliðna helgi. Þar afhenti ÍSÍ viðurkenningar til Sigrúnar Þuríðar Geirsdóttur og Hörpu Hrundar Berndsen, sem báðar náðu því afreki að synda Drangeyjarsund á árinu 2017. Þær fá nöfn sín einnig letruð á Drangeyjarbikarinn, sem gefinn var af ÍSÍ og geymdur er í höfuðstöðvum ÍSÍ í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Drangeyjarsund felst í því að synda um 7 kílómetra leið frá Drangey að Reykjanesi á Reykjaströnd án þess að klæða kuldann af sér, en sjórinn á þessum slóðum er frekar kaldur. Sigrún Þuríður er fimmta konan til að synda Drangeyjarsund en hún synti á tímanum 3 klst. og 29 mín og Harpa Hrund er sjötta konan, en hún synti á 4 klst. og 15 mín.
Þráinn Hafsteinsson, formaður fagráðs Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, afhenti viðurkenningarnar fyrir hönd ÍSÍ. Á myndinni eru verðlaunahafarnir ásamt Þráni Hafsteinssyni og Herði Oddfríðarsyni formanni Sundsambands Íslands. ÍSÍ óskar Sigrúnu Þuríði og Hörpu Hrund til hamingju með afrekin.