Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Skylmingasamband Íslands hlýtur styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ

27.11.2018
Í dag var gengið frá samningi Skylmingasambands Íslands og Afrekssjóðs ÍSÍ vegna styrkveitinga ársins 2018.
 
Skylmingasamband Íslands (SKY) flokkast sem B/Alþjóðlegt sérsamband samkvæmt flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2018. Heildarstyrkveiting sjóðsins til SKY vegna verkefna ársins er 7.200.000 kr. en til samanburðar þá hlutu verkefni SKY árið 2017 styrk að upphæð 3.300.000 kr. frá Afrekssjóði ÍSÍ.
 
Skylmingasamband Íslands hefur sent fjölmarga einstaklinga og lið til keppni erlendis á árinu og hafa keppendur bætt sig verulega á alþjóðlegum stigalistum. Um er að ræða heimsmeistaramót, heimsbikarmót, Evrópumót og Norðurlandamót, en aukin áhersla hefur verið lögð á ungmennalið sambandsins og er markmið sambandsins að eiga keppenda á Ólympíuleikunum í Tokýó 2020 og í París 2024.
 
Það voru þau Nikolay Ivanov Mateev, formaður SKY og Anna Karlsdóttir, varaformaður SKY, sem undirrituðu samninginn fyrir hönd SKY og þau Lilja Sigurðardóttir, formaður stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ fyrir hönd Afrekssjóðs ÍSÍ.