Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Elmar Atli knattspyrnumaður Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar

07.01.2019

Þann 30. desember sl. var Elmar Atli Garðarson knattspyrnumaður frá Vestra útnefndur Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Elmar Atli hefur æft og spilað knattspyrnu á Ísafirði frá því í yngri flokkum. Hann var mikilvægur hlekkur í liði Vestra í sumar og spilaði 20 leiki með liðinu í 2. deild þar sem liðið endaði í 3.sæti eftir harða keppni um sæti í Inkasso-deildinni. Elmar Atli spilaði þá þrjá bikarleiki sem Vestri lék á árinu. Hann leggur sig alltaf 100% fram og er frábær liðsmaður innan sem utan vallar. Þá er hann góð fyrirmynd ungra leikmanna og er iðinn við að miðla reynslu sinni til þeirra. Elmar Atli var á haustmánuðum kallaður til reynslu hjá sænska liðinu Helsingsborg þar sem hann æfði í viku.

Öll aðildarfélög HSV voru beðin um að tilnefna iðkendur úr sínum röðum og voru eftirtaldir tilnefndir:

Albert Jónsson Skíðafélagi Ísfirðinga
Anton Helgi Guðjónsson Golfklúbbi Ísafjarðar
Einar Óli Guðmundsson knattspyrnudeild Harðar
Elmar Atli Garðarson knattspyrnudeild Vestra
Jens Ingvar Gíslason handboltadeild Harðar
Kristín Þorsteinsdóttir Ívari
Kristján Guðni Sigurðsson Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar
Mateusz Lukasz Klóska blakdeild Vestra
Nemanja Knezevic körfuknattleikdsdeild Vestra
Ólöf Einarsdóttir Hestamannafélaginu Hendingu

Einnig var útnefndur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Fyrir valinu varð Hugi Hallgrímsson körfuknattleiksmaður í Vestra. Hugi er ungur og efnilegur körfuknattleiksmaður sem er í fremstu röð í sínum aldurshópi á landsvísu. Hann spilar hvorttveggja með drengjaflokki og meistaraflokki karla auk þess að hafa verið fastamaður í yngri landsliðum á vegum KKÍ. Þrátt fyrir ungan aldur er Hugi lykilleikmaður í meistaraflokki karla sem háir baráttu meðal efstu liða í 1. deild. Hann æfir vel og samviskusamlega með félagsliði sínu auk þess sem hann stundar nám á afreksbraut MÍ. Með metnaði sínum og dugnaði er hann öðrum fyrirmynd.

Í hófi þar sem útnefningarnar voru kynntar voru einnig afhent hvatningarverðlaun Ísafjarðarbæjar til Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar fyrir góða uppbyggingu og öflugt starf bogfimideildar.

Á myndunum sem fylgja fréttinni má annars vegar sjá Elmar Atla Íþróttamann Ísafjarðarbæjar og hins vegar Huga Hallgrímsson, efnilegasta íþróttamann Ísafjarðarbæjar.

Myndir með frétt