Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar - 25 dagar til leika
Í ár fer fram Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar vetrar- og sumarútgáfa. Sumarhátíðin fer fram í Bakú í Azerbaijan 21. - 27. júlí 2019. Verður þetta í fimmtánda skiptið sem Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram að sumri til, en í fjórtánda sinn sem vetrarhátíðin er haldin.
Vetrarhátíðin fer að þessu sinni fram í Sarajevó og austur-Sarajevó í Bosníu-Hersegóvínu 9.-16. febrúar n.k. Eru því í dag 25 dagar í að hátíðin verði sett. Keppnisgreinar á leikunum eru alpagreinar, skíðaskotfimi, skíðaganga, íshokkí, skautahlaup, listskautar, krulla og snjóbrettagreinar. Keppendur koma frá 46 Evrópuþjóðum og verða yfir eitt þúsund talsins. Íslendingar munu eiga sína fulltrúa íþróttafólks á hátíðinni, auk þjálfara og flokksstjóra, dómara, sjúkraþjálfara og aðalfararstjóra. Íslenski hópurinn verður tilkynntur á allra næstu dögum.
Ólympíuhátíðin er sett með athöfn sem nær hámarki þegar Ólympíueldur er tendraður og hátíðinni lýkur með lokaathöfn og skemmtun. Hátíðin hefur verið mikilvæg fyrir ungt íþróttafólk álfunnar í gegnum tíðina. Margir af fyrri keppendum á hátíðinni hafa síðar náð alla leið á efsta getustigi í sínum greinum. Hátíðin er einnig frábært tækifæri fyrir unga sjálfboðaliða að öðlast reynslu af því að vera hluti af skipulagningu og framkvæmd á stórum viðburði og að hitta fólk frá öðrum evrópskum löndum og efla þannig íþróttaleg samskipti innan álfunnar.
#eyof2019 #sarajevo #eastsarajevo