Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

150 dagar til Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar í Bakú

21.02.2019

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram í Bakú í Azerbaijan 21. - 27. júlí 2019 og er ætluð þátttakendum á aldrinum 14-18 ára. Mun þetta vera í fimmtánda skiptið sem Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram að sumri til. Í tilefni þess að í dag eru 150 dagar til hátíðarinnar birti skipulagsnefndin lukkudýrin, sem hvetja munu íþróttafólkið áfram á meðan á hátíðinni stendur. Lukkudýrið Jirtdan er lítill strákur sem kemur úr barnabókum frá Azerbaijan og er ein vinsælasta ævintýrapersónan á meðal barna í landinu. Hann er smár en knár og hefur sannað sig í mörgu ævintýrinu sem hetja. Lukkudýrið Babir er hlébarði frá Azerbaijan, dásamaður fyrir styrk sinn og hraða, en hlébarðar þessir eru í útrýmingarhættu og einungis um 15 hlébarðar enn lifandi. Lukkudýrunum er ætlað að endurspegla sögu og menningararfleifð Azerbaijan ásamt því að hvetja íþróttafólkið áfram á hátíðinni. 

Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar er að mörgu leyti eins og smækkuð útgáfa af Ólympíuleikum. Keppnisgreinar á hátíðinni eru frjálsíþróttir, körfuknattleikur, hjólreiðar, fimleikar, handbolti, júdó, sund, tennis og blak. Að þessu sinni verður einnig keppt í glímu. Keppendur koma frá 50 Evrópuþjóðum og eru þátttakendur um 3.600 talsins.

Ólympíuhátíðin er sett með athöfn sem nær hámarki þegar Ólympíueldur er tendraður og hátíðinni lýkur með lokaathöfn og skemmtun. Hátíðin hefur verið mikilvæg fyrir ungt íþróttafólk álfunnar í gegnum tíðina. Margir af fyrri keppendum á hátíðinni hafa síðar náð alla leið á efsta getustigi í sínum greinum. Hátíðin er einnig frábært tækifæri fyrir unga sjálfboðaliða að öðlast reynslu af því að vera hluti af skipulagningu og framkvæmd á stórum viðburði og að hitta fólk frá öðrum evrópskum löndum og efla þannig samband Evrópubúa. Íslendingar munu eiga sína fulltrúa íþróttafólks á hátíðinni, auk flokksstjóra, þjálfara, dómara og fararstjórnar.

Myllumerki hátíðarinnar í ár er #ReadyToShine. Annað slagorð sem jafnframt er notað í tengslum við hátíðina er „One spirit, whole Europe!“ Því slagorði er ætlað að benda á samheldni álfunnar og þeirra þjóða sem taka þátt í anda Ólympíuhátíðarinnar.

Vefsíða hátíðarinnar