Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Íþróttafólk UMSK 2018

25.02.2019

Sveitarfélög innan Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) hafa nýverið valið íþróttakonu og íþróttamann ársins 2018.

Seltjarnarnes 
Kjör íþróttamanns og íþróttakonu Seltjarnarness fór fram þann 31. janúar sl. að viðstöddu fjölmenni í Félagsheimili Seltjarnarness. Kjörið fór nú fram í 26. skiptið en það var fyrst haldið 1993. Kjörið er í umsjón íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, sem vill með kjörinu vekja athygli á gildi íþrótta, öflugu íþróttastarfi á Seltjarnarnesi og verðlauna sérstaklega afreksíþróttafólk úr hópi bæjarbúa. Íþróttakona Seltjarnarness 2018 er  Lovísa Thompson handknattleikskona. Íþróttamaður Seltjarnarness 2018 er Sigvaldi Eggertsson körfuknattleiksmaður. 

Garðabær
Íþróttamaður Garðabæjar hefur verið tilnefndur frá árinu 1982. Íþrótta- og tómstundaráð hefur umsjón með vali á íþróttamönnum ársins í Garðabæ. Tilkynnt er um valið á íþróttahátíð Garðabæjar sem haldin er í byrjun hvers árs. Baldur Sigurðsson var valinn íþróttakarl Garðabæjar 2018 og Freydís Halla Einarsdóttir íþróttakona Garðabæjar 2018.

Kópavogur 
Agla María Albertsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki og Valgarð Reinhardsson fimleikamaður úr Gerplu og voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2018. Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Golfskála GKG 10. janúar.

Mosfellsbær
Kynning á kjöri íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar fór fram í 27. skipti í íþróttamiðstöðinni að Varmá þann 17. janúar sl. að viðstöddum tæplega 400 gestum. Íþróttakona Mosfellsbæjar var kjörin María Guðrún Sveinbjörnsdóttir íþróttakona taekwondodeildar Aftureldingar og íþróttakarl Mosfellsbæjar var kjörinn Andri Freyr Jónasson knattspyrnumaður úr Aftureldingu. 

 

Úr þessum flotta hópi íþróttafólks valdi UMSK sitt íþróttafólk ársins. Íþróttamaður UMSK 2018 var valinn Valgarð Reinhardsson fimleikamaður úr Gerplu og íþróttakona UMSK 2018 var valin Agla María Albertsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki.

Valgarð varð á liðnu ári Íslandsmeistari í fjölþraut á Íslandsmeistaramóti Fimleikasambands Íslands (FSÍ). Hann varð einnig Íslandsmeistari í fjórum greinum, á svifrá, í hringjum, á tvíslá og á gólfi. Valgarð var einn af burðarstólpunum í liði Gerplu sem sigraði á Bikarmóti FSÍ annað árið í röð. Á Norðurlandameistaramótinu hafnaði hann í 6. sæti í fjölþraut og í 2. sæti á tvíslá. Á Evrópumeistaramótinu í Glasgow í Skotlandi komst Valgarð svo fyrstur Íslendinga í úrslit í stökki, sem er frábær árangur hjá þessum unga fimleikamanni. Eftir harða keppni í úrslitum í stökki hafnaði hann að lokum í 8. sæti

Agla María átti frábært tímabil með liði Breiðabliks 2018, sem er eitt það besta í sögu félagsins, en liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Agla María lék alla leiki liðsins bæði í deild og bikar og skoraði í þeim 9 mörk, ásamt því að leggja upp fjölmörg mörk fyrir samherja sína. Hún lék 10 A-landsleiki á árinu, en liðið var hársbreidd frá því að komast á HM sem fram fer í Frakklandi á þessu ári. Þessi 19 ára gamla Kópavogsmær hefur alls leikið 19 landsleiki fyrir hönd Íslands og mun landsleikjunum að öllum líkindum fjölga hratt á næstu árum.

Á fyrri myndinni með fréttinni má sjá Valdimar Leo formann UMSK og Öglu Maríu knattspyrnukonu og íþróttakonu UMSK 2018.

Á seinni myndinni eru Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Valgarð Reinhardsson fimleikamaður úr Gerplu, Agla María Albertsdóttir knattspyrnukona úr Breiðabliki og Jón Finnbogason, formaður íþróttaráðs Kópavogs við afhendingu viðurkenninganna á íþróttahátíð Kópavogs 10. janúar sl. 

 

Myndir með frétt