Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Síðasti dagur til að sækja um að fara til Ólympíu

27.02.2019

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands auglýsir eftir tveimur þátttakendum, kven- og karlkyns, á námskeið ungs íþróttafólks (20 til 35 ára) á vegum Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu í Grikklandi dagana 1.- 15. júní n.k. Að þessu sinni er aðal umfjöllunarefnið „Olympic Diplomacy and Peace?“

Þetta er einstakt tækifæri til að kynna sér starfsemi Alþjóða Ólympíuakademíunnar ásamt því að taka þátt í umræðum um gildi og hugsjónir Ólympíuhreyfingarinnar. Flugferðir, gisting og uppihald eru þátttakendum að kostnaðarlausu. Leitað er að einstaklingum sem náð hafa mjög góðum árangri í íþróttagrein (-greinum) og/eða sinnt kennslu/þjálfun/félagsstörfum innan íþróttahreyfingarinnar, ásamt því að sýna málefnum Ólympíuhreyfingarinnar sérstakan áhuga. Æskilegt er að umsækjandi sjái fram á áframhaldandi starf innan íþróttahreyfingarinnar á næstu árum. Umsækjandi þarf að hafa gott vald á ensku og/eða frönsku og vera fyrirmynd annars æskufólks í hvívetna.

Þátttakendur taka þátt í alþjóðlegu námskeiðahaldi í tæpar tvær vikur og búa á heimavist Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu. Unnið er í lotum fyrir hádegi og eftir hádegi sem gjarnan lýkur á umræðum. Að því loknu er ýmislegt gert til að hrista hópinn saman; keppt í allskonar íþróttum, farið á ströndina og í skoðunarferðir. Reynsla þeirra sem hafa farið er að þau hafa öðlast dýpri skilning á sögu Ólympíuleikanna, fyrir hvað Ólympíuhugsjónin stendur og hvernig megi miðla þeirri þekkingu áfram. Það dýrmætasta hafa þó verið vináttuböndin sem þátttakendur mynda að lokinni tveggja vikna dvöl.
Umsóknum skal skilað, á þar til gerðum eyðublöðum til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, ekki seinna en miðvikudaginn 27. febrúar n.k.

Umsóknareyðublað.

Umsókn skal skilað á ensku á skrifstofu ÍSÍ og skulu fylgja henni tvær passamyndir. 

Frekari upplýsingar veitir Þórarinn Alvar Þórarinsson verkefnastjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, sími 514 4000, alvar@isi.is.

Vefsíða Alþjóða Ólympíuakademíunnar.