Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Málþing um afreksíþróttir

16.03.2019

Líkt og í aðdraganda síðasta Íþróttaþings ÍSÍ stóð Afreks- og Ólympíusvið ÍSÍ fyrir málþingi um afreksíþróttir fyrr í vikunni. Sambandsaðilum ÍSÍ gafst kostur á að senda fulltrúa á málþingið. Í upphafi málþingsins var farið yfir stöðu málaflokksins og þróun síðustu misseri.

Þátttakendum var skipt í þrjá hópa sem hver tók fyrir sig ákveðin málefni. Hópur 1 tók fyrir umhverfi afreksíþróttafólks, möguleika í tengslum við skólakerfið, lýðréttindi og annað sem þarf að vinna að til að daglegt líf afreksíþróttafólks á Íslandi verði betra. Hópur 2 ræddi umhverfi sérsambanda - aðgengi að íþróttamannvirkjum fyrir æfingar og keppni, þær ytri kröfur sem eru á sérsambönd og hvernig þarf að styðja betur við að sérsambönd geti staðið undir sínum skyldum. Hópur 3 ræddi um umhverfi afreksíþrótta þar sem skilgreiningar í afreksstarfi voru ræddar, auk mælikvarða í afreksstarfi, stefnumótun og samvinnu.

Líflegar umræður spunnust í hópunum sem kynntu svo í lok málþingsins sína helstu punkta og niðurstöður umræðnanna. Málþingið mun eflaust nýtast vel í aðdraganda Íþróttaþings ÍSÍ þar sem Afreksstefna ÍSÍ verður til umfjöllunar.

Á myndinni sem fylgir má sjá Örn Andrésson formann stjórnar Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ setja þingið.

Myndir með frétt