Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25

120 manns á héraðsþingi HSK

18.03.2019

Héraðsþing Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) var haldið á Laugalandi í Holtum fimmtudaginn 14. mars sl. Um 120 manns mættu á þingið. Stjórn HSK lagði fram 17 tillögur og voru þær allar samþykktar, en nokkrum þeirra var breytt í meðförum þingsins. Þinggerð mun birtast hér á vef HSK á næstu dögum. Engar breytingar urðu á stjórn sambandsins, en allir stjórnar- og varastjórnarmenn gáfu kost á sér áfram. 

HSK veitti nokkur sérverðlaun á þinginu. Umf. Þjótandi hlaut unglingabikar HSK, Umf. Hrunamanna fékk foreldrastarfsbikarinn og þá var Marteinn Sigurgeirsson valinn öðlingur ársins.
Myndskreytt ársskýrsla kom út á þinginu og má sjá vefútgáfu skýrslunnar á www.hsk.is.

Tilkynnt var um val á íþróttakarli og íþróttakonu HSK í fyrsta sinn, en reglugerð um kjörið var breytt á þingi 2018. Það voru þau Dagný María Pétursdóttir, taekwondokona og Elvar Örn Jónsson, handknattleiksmaður, bæði úr Umf. Selfoss sem voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl HSK árið 2018. Dagný María vann til gullverðlauna á Norðurlandamótinu 2018 og vann einnig til gullverðlauna á Nurtzi Open í Finnlandi. Hún er ein af sterkustu taekwondokonum landsins. Elvar Örn er lykilleikmaður í toppliði Selfoss í Olísdeild karla í handbolta. Liðið náði sínum besta árangri í deildarkeppni árið 2018, lék í undanúrslitum Íslandsmótsins og náði eftirtektarverðum árangri í Evrópukeppni. Elvar Örn hefur stimplað sig inn sem A-landsliðsmaður og var valinn besti leikmaður Olísdeildarinnar árið 2018.

Þess má geta að Guðmundur Kr. Jónsson, heiðursformaður HSK og afi Elvars afhenti verðlaunin með Guðríði formanni, en Guðmundur Kr. var kosinn íþróttamaður HSK árin 1965 og 1966.

Mynd: Elvar og Daníel Jens bróðir Dagnýjar. Dagný er við nám erlendis og gat ekki tekið við bikarnum.