Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Vel mætt á ársþing ÍBR

22.03.2019

49. þing Íþróttabandalags Reykjavíkur fór fram í Laugardalshöll 20. - 21. mars sl. Góð mæting var á þingið en um 70 fulltrúar frá 29 félögum og ráðum tóku þátt í þingstörfum. Ingvar Sverrisson formaður ÍBR setti þingið en að setningarræðu lokinni ávörpuðu þau Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, og Hafsteinn Pálsson, ritari framkvæmdastjórnar ÍSÍ, þingið. Báðir gestirnir þökkuðu íþróttafélögunum í Reykjavík fyrir þeirra frábæra starf og hvöttu þau áfram til góðra verka. Góðar umræður voru um fyrirliggjandi þingtillögur í nefndarfundunum á miðvikudagskvöldið og voru allar tillögur samþykktar samhljóða á seinni þingdeginum. Smellið hér til að skoða samþykktir þingsins.

Ingvar Sverrisson var endurkjörinn formaður ÍBR til næstu tveggja ára en hann hefur verið í því embætti síðan árið 2009. Örn Andrésson, sem verið hefur varaformaður ÍBR undanfarin ár og setið í stjórn bandalagsins undanfarin 30 ár, dró framboð sitt til áframhaldandi stjórnarsetu til baka á þinginu. Örn fékk miklar þakkir frá félögum sínum í stjórninni og þingfulltrúum fyrir frábært starf. Margrét Valdimarsdóttir kemur ný inn í framkvæmdastjórnina en aðrir í stjórninni eru Björn M. Björgvinsson, Gígja Gunnarsdóttir, Guðrún Ósk Jakobsdóttir, Lilja Sigurðardóttir og Viggó H. Viggósson. Í varastjórn voru kjörnir þeir Haukur Haraldsson og Gústaf Adolf Hjaltason. Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ, Hafsteinn Pálsson ritari framkvæmdastjórnar ÍSÍ og Örn Andrésson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ voru fulltrúar ÍSÍ á þinginu. Sigríður var einnig þingforseti.

Hér á vefsíðu ÍBR má finna ársskýrslu og ársreikninga fyrir starfsárin 2017 og 2018 ásamt tillögum, samþykktum og fleiri gögnum þingsins.