Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Ársþing ÍSS - Ný stjórn

09.04.2019

20. Ársþing Skautasambands Íslands fór fram í Borgarnesi á B59 Hóteli sl. helgi. Þingforseti var Valdimar Leó Friðriksson formaður UMSK. Heba Finnsdóttir var kosin þingritari. Farið var yfir skýrslu stjórnar, ársuppgjör og reikningar samþykktir. Gunnar Bragason, gjaldkeri framkvæmdastjórnar ÍSÍ, var fulltrúi ÍSÍ á þinginu.

Þóra Gunnarsdóttir, formaður mótanefndar ÍSS tók næst til máls og fór yfir mikilvægi sjálfboðaliða og ómetanlegt framlag þeirra til starfs íþróttarinnar. Hún afhenti síðan tveimur sjálfboðaliðum viðurkenningar fyrir framúrskarandi framlag til mótamála og starf félaganna í vetur og fengu þær Hildur Arnardóttir frá Ösp og Margrét Rún Karlsdóttir frá SA viðurkenningu að þessu sinni með glæsilegri bókagjöf, Flóru Íslands.
Eftir að fjárhagsáætlun og lagabreytingatillögur höfðu verið lagðar fram var tekið hádegishlé í boði ÍSS þar sem B59 Hótel reiddi fram ljúffengar veitingar.

Eftir hádegishlé tóku þingnefndir til starfa en Alllsherjarnefnd, Laganefnd og Fjárhagsnefnd störfuðu á þinginu auk Kjörbréfanefndar. Eftir að nefndir höfðu lokið störfum hófust kosningar um tillögur nefnda auk kosningar í stjórn, varastjórn og skoðunarmenn reikninga. Ný stjórn ÍSS er Guðbjört Erlendsdóttir, formaður en ásamt henni sitja Svava Hróðný Jónsdóttir, Oksana Shalabai, Ingibjörg Pálsdóttir og Stefán Hjaltalín í nýrri stjórn auk varamannanna, Guðrúnar Hannesdóttur og Þóru Sigríðar Torfadóttur. Síðast á dagskrá var afhending fyrsta heiðursmerkis ÍSS en ákveðið var að á 20. þinginu yrðu tekin upp heiðursverðlaun í formi silfur- og gullmerkja og heiðursstjörnu. Ákveðið var að veita Elísabetu Eyjólfsdóttur, fyrsta formanni ÍSS, silfurmerki en einnig var fráfarandi stjórnarmeðlimum afhent blóm. Þingi var slitið um kl 16:00 og færðu fundargestir sig fram í anddyri hótelsins þar sem boðið var upp á drykk. Hátíðarkvöldverður hófst klukkan 18:00 þar sem góður hópur þinggesta naut samveru fram á kvöld.