Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ný stjórn hjá HSÍ

09.04.2019

Þann 6. apríl sl. fór fram 62. ársþing Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) í Laugardalshöll þar sem Guðmundur B. Ólafsson var endurkjörinn formaður til tveggja ára og ný stjórn kjörin. Ný í stjórn eru þau Páll Þórólfsson, Jón Viðar Stefánsson, Magnús Karl Daníelsson og Kristín Þórðardóttir. Hjalti Þór Hreinsson, Þorbergur Aðalsteinsson, Hjördís Guðmundsdóttir og Þorgeir Haraldsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og voru þökkuð góð störf í þágu HSÍ. Hagnaður HSÍ árið 2018 nam um 7,5 milljónum kr. en það er umtalsverður viðsnúningur á rekstrinum frá árinu 2017 þegar 38 milljón kr. tap var á rekstri sambandsins. Velta HSÍ árið 2018 nam tæpum 275 milljónum kr. sem er aukning um rúmar 50 milljónir frá árinu 2017 og munar þar mest um aukningu á tekjum frá styrktaraðilum og úr Afrekssjóði ÍSÍ. Meðal lagabreytinga á ársþinginu voru nýjar reglur sem snúa að veðmálum. Áhyggjur vegna aukinna umsvifa þeirra innan handboltans voru áberandi og ströng viðurlög samþykkt. Auk þess voru nýjar siðareglur HSÍ samþykktar ásamt afreksstefnu sambandsins. Þá var samþykkt þingsályktunartillaga um nýjan þjóðarleikvang. Tillagan er eftirfarandi:

Handknattleiksþing 2019 lýsir yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi landsliða í handknattleik. Öllum landsliðum HSÍ, jafnt yngri landsliðum sem A landsliðum, vantar varanlega aðstöðu til æfinga og keppni. Fullyrða má að aðstöðuleysið sé farið að hamla eðlilegri framþróun í afreksstarfi hreyfingarinnar. Handknattleiksþing hvetur stjórnir HSÍ og Íþrótta- og Ólympíusambandsins (ÍSÍ), sem regnhlífarsamtök hreyfingarinnar, til að taka höndum saman við aðrar íþróttagreinar, sem svipað er ástatt um, með það fyrir augum að hefja tafarlausar viðræður við ríkisvaldið og borgaryfirvöld um varanlega lausn.

Á myndinni má sjá nýkjörna stjórn HSÍ. Frá vinstri eru: Magnús Karl Daníelsson, Páll Þórólfsson, Kristín Þórðardóttir, Davíð B. Gíslason, Guðmundur B. Ólafsson, Guðríður Guðjónsdóttir, Jón Viðar Stefánsson og Reynir Stefánsson.