Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10

Heiðursveitingar á 74. Íþróttaþingi ÍSÍ

03.05.2019

74. Íþróttaþing ÍSÍ var sett í Gullhömrum í Reykjavík í dag kl. 15:00.

Íþróttaþing ÍSÍ kaus fjóra einstaklinga Heiðursfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir frábær störf í forystu íslenskrar íþróttahreyfingar. Það voru Ari Bergmann Einarsson, Guðmundur Kr. Jónsson, Hrafnhildur Guðmundsdóttir og Kolbeinn Pálsson. Öll hafa þau skilað framúrskarandi starfi í þágu íþrótta og hafa þau öll hlotið Heiðurskross ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ. Þann heiður hlutu þau á 100 ára afmælishátíð ÍSÍ í Ráðhúsi Reykjavíkur árið 2012 og því var vel við hæfi að þau hafi öll saman hlotið þessa heiðursnafnbót í dag. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, og Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, afhentu viðurkenningarnar.

Ari Bergmann Einarsson er fæddur 7. júní 1949. Ara hlotnuðust nokkrar viðurkenningar fyrir afrek í siglingaíþróttum á yngri árum. Hann vann til fjögurra Íslandsmeistaratitla á árunum 1979 til 1984, var kjörinn Siglingamaður Reykjavíkur 1979 og Siglingamaður ársins 1982 og 1984. Ari var formaður Siglingasambands Íslands á árunum 1987 til 1991 og er heiðursformaður sambandsins. Hann átti sæti í Ólympíunefnd Íslands um 12 ára skeið frá 1985, þar af í framkvæmdastjórn í fjögur ár. Þar gegndi hann fjölda trúnaðarstarfa, jafnt innanlands sem utan og var hann í fararstjórn á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og í Seoul 1988. Þá var hann aðalfararstjóri íslensku sendinefndarinnar á leikunum í Barcelóna 1992. Ari var formaður undirbúningsnefndar Smáþjóðaleikanna 1997 og í stjórn undirbúningsnefndar Alþjóðaleika ungmenna í Reykjavík 2007. Hann sat í stjórn Afreksmannasjóðs ÍSÍ í níu ár frá árinu 1990, þar af sem formaður í tvö ár. Ari er enn virkur í starfi íþróttahreyfingarinnar og situr í Heiðursráði ÍSÍ.

Guðmundur Kr. Jónsson er fæddur 14. september 1946. Guðmundur hóf ungur að iðka frjálsar íþróttir á Selfossi og var afburða spretthlaupari og stökkvari. Hann vann mörg glæst afrek bæði á héraðs- og landsvísu og var til að mynda stigahæsti keppandinn í karlaflokki á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni árið 1965, en þar sigraði hann bæði í 100 metra hlaupi og þrístökki. Hann varð snemma öflugur félagsmálamaður, tók virkan þátt í starfi heima í héraði, í sínu félagi Umf. Selfoss. Guðmundur var m.a. formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss árin 1968-1979 og síðar framkvæmdastjóri félagsins, ásamt því að vera vallarstjóri á Selfossvelli. Guðmundur varð svo formaður félagsins 2014-2018. Guðmundur var kjörinn formaður HSK árið 1981 og hélt um stjórnartaumana í átta ár með miklum myndarskap. Hann var kjörinn Heiðursformaður HSK á ársþingi sambandsins árið 2018. Guðmundur átti sæti í stjórn og varstjórn ISÍ um tíma. Hann tekur enn virkan þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar með ýmsum hætti.

Hrafnhildur Guðmundsdóttir er fædd 9. júlí 1943. Hrafnhildur varð 35 sinnum Íslandsmeistari í sundi á árunum 1957 til 1972 og setti alls 75 Íslandsmet og eru þá ótalin metin sem hún átti með öðrum í boðsundi. Hún var langfremsta sundkona landsins á árunum 1962 til 1966 og átti þá öll Íslandsmet kvenna í sundi, nema í 1500 m sundi – alls 18 talsins. Hrafnhildur, sem keppti lengst af fyrir ÍR, varð Reykjavíkurmeistari 20 sinnum. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikum í Tókýó 1964 og í Mexíkó 1968. Hún hafnaði í 2. sæti í kjöri um Íþróttamann ársins 1963. Að sundferlinum loknum tók þjálfarastarfið við, lengst af í Þorlákshöfn, þar sem hún þjálfaði meðal annars fjögur börn sín sem öll áttu glæstan íþróttaferil í sundi, en hún endaði farsælan þjálfaraferil sinn hjá sunddeild Umf. Selfoss. Hrafnhildur átti sæti í Ólympíunefnd Íslands um árabil og sat auk þess í ýmsum nefndum og ráðum hjá Sundsambandi Íslands.

Kolbeinn Pálsson er fæddur 26. nóvember 1945. Kolbeinn var landsliðsmaður í körfuknattleik og sá fyrsti úr körfuknattleik til að hljóta titilinn Íþróttamaður ársins en þá heiðursnafnbót hlaut hann árið 1966. Hann spilaði 55 leiki fyrir karlalandslið Íslands í körfuknattleik og varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari í íþróttinni með sínum félagsliðum. Kolbeinn á að baki áratuga starf í þágu körfuknattleiksíþróttarinnar en hann gegndi meðal annars formannsembætti í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands frá 1988-1996. Hann er enn virkur í starfi fyrir íþróttahreyfinguna og er meðal annars meðlimur í nefnd ÍSÍ um íþróttir fyrir 60+.

Ari, Guðmundur, Hrafnhildur og Kolbeinn eru vel að þessum heiðri komin og ÍSÍ óskar þeim til hamingju með að vera komin í hóp Heiðursfélaga ÍSÍ.

Myndir með frétt