Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Íþróttasamband fatlaðra 40 ára í dag

17.05.2019

Í dag, föstudaginn 17. maí, fagnar Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) 40 ára afmæli sínu. Af því tilefni verður sambandið með afmælishóf á Radisson Blu Hóteli Sögu. Afmælisár sambandsins er þéttskipað, en fyrr á árinu fór stór hópur Íslendinga til Abu Dhabi til keppni á heimsleikum Special Olympics. Framundan hjá íslensku afreksfólki eru svo heimsmeistaramót í sundi, frjálsíþróttum, bogfimi og handahjólreiðum og fjöldamörg önnur verkefni sem gera 40 ára afmælisárið eitt það stærsta í sögu Íþróttasambands fatlaðra.

Vefsíða Íþróttasambands fatlaðra.

Hér fyrir neðan er stiklað á stóru í sögu sambandsins síðustu 40 ár. Eins má hér nálgast tengil á bók sem ÍF gaf út í tengslum við 25 ára afmæli sambandsins.

Íþróttasamband fatlaðra – sögulegt yfirlit í 40 ár

Undir kjörorðinu „Stærsti sigurinn er að vera með“ hóf Íþróttasamband fatlaðra starfsemi sína. Óhætt er að fullyrða að frá stofnun sambandins og aðildarfélaga þess hefur margt áunnist og margs er að minnast. Þannig hefur fatlað íþróttafólk og afrek þess vakið aðdáun landsmanna og hróður þess borist langt út fyrir landsteinana. Hér neðanmáls má sjá nokkra punkta úr 40 ára sögu íþrótta fatlaðra á Íslandi.

1. Seoul 1988 og vitundarvakningin - Ólympíumót fatlaðra árið 1988 í Seoul í Suður-Kóreu markaði þátttaskil í 24 ára sögu mótanna þar sem Ólympíumótið fór í fyrsta sinn fram á sama stað og Ólympíuleikarnir sjálfir. Frábær árangur íslensku keppendanna vakti þjóðarathygli þar sem Haukur Gunnarsson og Lilja María Snorradóttir unnu til gullverðlauna, Haukur í hlaupum og Lilja María í sundi. Fatlaðir íþróttamenn urðu þjóðhetjur og óhætt er að fullyrða að þessi árangur lagði grunn að þeirri vitundarvakningu sem orðin er um íþróttir fatlaðra.

2. Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) - Árið 1989 var Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra – IPC (International Paralympic Committee) stofnuð. 203 fulltrúar frá 44 löndum ásamt fulltrúum alþjóðasamtaka fatlaðra íþróttamanna, ISBA (samtök blindra), Cp-ISRA (samtök spastiskra), ISMGF (samtök mænuskaðaðra), IOSD (samtök aflimaðra og annarra) og CISS (samtök heyrnarskertra/lausra) tókust á um stofnun einna samtaka sem bæru ábyrgð á fjölgreina íþróttamótum allra fötlunarflokka. Stofnun IPC var mikið gæfuspor og samtökunum hefur vaxið fiskur um hrygg og í dag orðin virt og viðurkennd samtök á alþjóðavettvangi.

3. Special Olympics - Íþróttasamband fatlaðra gerðist aðili að Special Olympics samtökunum (SOI) árið 1989 og hefur síðan þá verið umsjónaraðili samtakanna á Íslandi. Samtökin voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni og stendur SOI að íþróttastarfi/leikum fyrir fólk með þroskahömlun án tillitis til getu hvers og eins. Því er engra lágmarka krafist, keppt við jafningja og allir fá verðlaun. Umgjörð eins og á ólympíumótum en keppnisform og val keppenda gjörólíkt.

4. London 2012 - Ólympíuleikarnir og Ólympíumótið í London 2012 eru án efa einhver best heppnaði Ólympíuviðburður sem haldinn hefur verið. Sama framkvæmdanefndin sá um báða þessa viðburði sem nefndin kynnti sem „The London Games“, 45 daga íþróttahátíð sem hófst með setningu Ólympíuleikanna og lauk með lokaathöfn Ólympíumóts fatlaðra. Uppselt var á alla viðburði beggja íþróttaviðburðanna og aldrei hafa fleiri fylgst með sjónvarpsútsendingum þeim tengdum. Ríkisútvarpið var í fyrsta sinn með beinar útsendingar frá Ólympíumóti fatlaðra 2012 og vakti frammistað íslenska íþróttafólkins ómælda athygli. Þetta árið varð gullverðlaunahafinn í sundi fatlaðra, Jón Margeir Sverrisson, í þriðja sæti í kjöri íþróttamanns ársins hjá íþróttafréttamönnum.

5. Kristín Rós og Heiðurshöll ÍSÍ - Árið 2013 var sundkonan Kristín Rós Hákonardóttir fyrst fatlaðra íþróttamann útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ sem er án efa ein æðsta viðurkenning sem íþróttamanni er sýnd. Kristín Rós var og er ein mesta afrekskona íslenskra íþrótta en hún keppti á fimm heimsmeistaramótum og fimm Ólympíumótum og setti samtals sextíu heimsmet og níu Ólympíumótsmet. Kristín Rós var kjörin íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra tólf ár í röð, fyrst árið 1995 og síðast árið 2006. Kristín Rós vakti athygli bæði hér á landi og erlendis fyrir einstakan íþróttaferil sinn. Hún hlaut viðurkenningu frá Eurosport árið 2004 fyrir framúrskarandi árangur og var fyrsti íslenski íþróttamaðurinn sem fær þessa viðurkenningu sem og fyrsti íþróttamaðurinn úr röðum fatlaðra í heiminum. Kristín Rós lauk keppnisferli sínum til tuttugu og tveggja ára árið 2006 með því að vinna til verðlauna á heimsmeistaramóti fatlaðra í Suður-Afríku.

6. Gullkonan Sigrún Huld - Sigrún Huld Hrafnsdóttir var ein fremsta sundkona úr röðum þroskahamlaðra. Á 13 ára sigursælum ferli sínum, sem spannaði frá árunum 1983 til 1996, var hún nær nær ósigrandi á sundmótum hér innanlands auk þess að vera sigursæl á alþjóðlegum mótum. Bestum árangri náði Sigrún Huld á Ólympíumóti þroskahamlaðra í Madrid á Spáni árið 1992 þegar hún vann til 9 gullverðlauna og 2 silfurverðlauna og setti um leið 4 heimsmet í einstaklingsgreinum og fjögur í boðsundum. Sigrún Huld var þrívegis valin íþróttamaður ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra, 1989, 1991 og 1994 og árið 1991 var hún útnefnd besti íþróttamaður þroskahamlaðra í heiminum af Alþjóðasamtökum þroskahamlaðra, INAS. Þá var hún valin íþróttamaður Reykjavíkur árið 1992.

7. Stofnun ÍF - Íþróttasamband fatlaðra var stofnað 17. maí árið 1979 og var Sigurður Magnússon fyrsti formaður þess. Aðildarfélög sambandsins voru fimm talsins þegar það var stofnað, Íþróttafélg fatlaðra í Reykjavík, Akur og Eik á Akureyri, Björk og Íþróttafélag heyrnarlausra. Félögunum átti eftir að fjölga ört og voru orðin níu talsins árið 1983 og eru í dag 20 talsins. Meginhlutverk ÍF er að hafa yfirumsjón með allri íþróttastarfsemi fatlaðra og að vinna að eflingu íþróttastarfsemi fatlaðra og koma fram erlendis í því sambandi. Ólíkt því sem gerðist víða um heim var ÍF stofnað að tilstuðlan ÍSÍ en ekki af hagsmunasamtökum fatlaðra. Íþróttir hafa því ávallt verið í forgrunni án áhrifa og afskipta hagsmunasamtaka einstakra fötlunarhópa. Árið 1984 tók Ólafur Jensson við formennsku ÍF og gegndi henni til 1996 er Sveinn Áki Lúðvíksson tók við sem formaður. Gengdi Sveinn Áki formennsku ÍF í rúm 20 ár eða þar til núverandi formaður, Þórður Árni Hjaltesed tók við formennskunni.

8. Afrek á alþjóðavettvangi - Ísland tók fyrst þátt í Ólympíumóti fatlaðra árið 1980 og hefur æ síðan átt keppendur í slíkum mótum sem og að senda þátttakendur til keppni í Evrópu- og Heimsmeistaramótum. Þannig hafa fatlaðrir íslenskir íþróttamenn unnið til 98 verðlauna á Ólympíumótum fatlaðra frá árinu 1980. Af þessum verðlaunum eru 37 gullverðlaun, síðast í London 2012. Þá hafa íþróttamenn ÍF unnið til 66 verðaluna á HM og 53 verðlauna á EM. Ísland tók fyrst þátt í Ólympíumótinu í vetraríþróttum 2010 þegar Erna Friðriksdóttir, fyrst Íslendinga, náði lágmörkum fyrir mótið í alpagreinum. Jóhann Þór Hólmgrímsson fetaði svo í spor Ernu á Vetrarólympíumótinu 2014 í Sochi þegar hann varð fyrstur íslenskra karla til að keppa á mótinu í alpagreinum.

9. Þátttaka þroskahamlaðra - Þroskahamlaðir tóku fyrst þátt í Ólympíumóti faltaðra í Atlanta árið 1996 en árið 1992 hafði sérstakt Ólympíumót þroskahamlaðra verið haldið í Madrid á Spáni. Vegna svinldmála tengdum flokkun þroskahamlaðra og upp um komst á Ólympíumótinu í Sidney árið 2000 var þroskahömluðum neitað um þátttöku í Ólympíumótunum 2004 og 2008 eða þar til viðurkennt, gegnsætt flokkunarkerfi yrði samþykkt. Viðurkennt flokkunarkerfi leit dagsins ljós í lok árs 2008 og var prufukeyrt í fyrsta sinn á EM fatlaðra í sundi sem fram fór á Íslandi 2009. Þroskahamlaðir íþróttamenn voru síðan meðal þátttakenda á Ólympíumótinu í London 2012.

10. EM í sundi - Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi fór fram á Íslandi í októbermánuði 2009. Mótið er stærsta alþóðlega sundmótið sem haldið hefur verið hér á landi með þátttöku rúmlega 600 keppenda, þjálfara og fararstjóra. Alls voru 73 Evrópumet og 24 heimsmet sett á mótinu sem tókst í alla staði vel með dyggri aðstoð fjölmargra sjálfboðaliða, fyrirtækja að ólgleymdri aðstoð íþróttahreyfingarinnar, SSÍ, ÍSÍ og ÍBR.
Í kjölfar svindmála sem komst upp um í herbúðum Spánverja á Ólympíumótinu í Sidney árið 2000 var þroskahömluðum meinaður aðgangur að mótum IPC. Norðurlöndin, með Ísland í fararbroddi, leiddu málið til lykta og var Evrópumeistaramótið á Íslandi 2009 fyrsta skrefið í því að leifa að nýju þroskahamlaða íþróttamenn inn í alþjóðleg mót á vegum IPC.

11. Afrekssjóður ÍSÍ - Í ágústmánuði 2005 komust framkvæmdastjórn ÍSÍ og stjórn ÍF að einróma samkomulagi varðandi styrkjafyrirkomulag til framtíðar fyrir fatlaða íþróttamenn. Frá og með 1. janúar 2006 gat ÍF sótt um afreksstyrki fyrir sitt íþróttafólk á sama grundvelli og önnur sérsambönd ÍSÍ. Líkt og hjá öðurm sérsambaöndum krefst ÍSÍ upplýsinga um stöðu íþróttamanna á styrkleikalistum alþjóðasambanda og gera kröfur um árangur, ástundun og eftirlit. Aðild að Afrekssjóði ÍSÍ var mikil viðurkenning á því að meta afrek fatlaðra íþróttamanna til jafns við aðra ófatlaða íþróttamenn.

12. Tímaritið Hvati - Að frumkvæði fyrrum formanns ÍF hóf sambandið árið 1991 að gefa út tímaritið Hvata. Tímaritinu, sem kemur út tvisvar sinnum á ári, er dreift ókeypis í fimm þúsund eintökum á hina ýmsu staði með það að markmiði að upplýsa fólk og vekja athygli á íþróttum fatlaðra.

13. Samstarfsaðilar ÍF - Íþróttasamband fatlaðra hefur verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga öfluga bakhjarla í hinum ýmsu fyrirtækjum sem sum hafa stutt við starfsemi sambandins frá stofnun þess. Í kjölfar Ólympíumótsins í Atlanta 1996 hóf ÍF að gera langtímasamninga við samstarfsaðila sína sem gert hefur samandinu kleift að horfa fram á veginn með langtímamarkmið íþróttafóks í huga.

14. Heimsleikar Special Olympics – Heimsleikar Special Olympics hafa verið haldnir frá stofnun samtakanna, sumarleikar frá 1968 og vetrarleikar frá 1977. Íþróttasamband fatlaðra hefur sent keppendur á Heimsleika Special Olympics, á sumarleika frá árinu 1991 og á vetrarleika frá árinu 2013. Umgjörð alþjóðaleika Special Olympics er ávallt stórglæsileg og fólk með þroskahömlun er þar í sviðsljósinu. Allir eiga jafna möguleika á verðlaunum og ófáir stíga á verðlaunapall í fyrsta skipti á ævinni. Margir hafa blómstrað á þessum leikum, enginn efast um eigin verðleika, sjálfsmyndin styrkist og vináttutengsl myndast. Frá því Ísland tók fyrst þátt hafa rúmlega 500 keppendur notið þess að vera þátttakendur í þessum stóra viðburði.

15. Nýjar íþróttagreinar – Í tengslum við þátttöku Íslands í Heimsleikum Special Olympics hafa hér á landi verið innleiddar nýjar íþróttagreinar. Þar má nefna áhaldafimleika, listhlaup á skautum, nútímafimleika, kraftlyftingar kvenna og unified badminton. Þróun nýrra greina byggir á samstarfi við þjálfara sem eru lykilaðar varðandi þróunarstarf og eftirfylgni nýrra greina.

16. Norræn samvinna - Nord-HIF samtökin (Íþróttasambönd fatlaðra á Norðurlöndum) voru stofnuð hér á landi 1979 og halda árlega fundi, til skiptis á Norðurlöndunum auk þess sem framkvæmdastjórar landanna hittast á fundum einu sinn á ári. Skiptast löndin á að fara með formennsku og skrifstofu samtakanna og þar með að koma fram fyrir hönd þeirra í hinum ýmsu málum sem tengjast íþróttum fatlaðra á Norðurlöndum. Meðal verkefna Nord-HIF er umsjón Norðurlandameistaramóta, standa að framkvæmd ráðstefna um málefni er tengjast íþróttum fatlaðra, skýra stöðu og stefnu Norðurlandanna á alþjóðavettvangi og hafa þannig áhrif á þróun íþrótta fatlaðra í hinum ýmsu íþróttagreinum.

17. Sumarbúðir ÍF – Íþróttasamband fatlaðra hefur rekið sumarbúðir á hverju sumri frá árinu 1986. Markmið sumarbúðanna er að kynna, efla og viðhalda áhuga á íþróttum fatlaðra. Hefur þessi starfsemi notið mikilla vinsælda og ljóst að þörfin er mikil enda hafa margir kynnst íþróttum fatlaðra í fyrsta sinn á sumarbúðunum.

18. Aðildarfélög ÍF – Árið 1970 ákvað Íþróttaþing ÍSÍ að sambandið beitti sér fyrir trimmherferð með það að markmiði að auka áhuga almennings á gildi hreyfingar. Í framhaldi samþykktar íþróttaþings skipaði framkvæmdastjórn ÍSÍ sérstaka nefnd til undirbúnings íþróttastarfi fatlaðra og eftir margháttaðan undirbúning og kynningu á árinu 1973 leið að því að fyrstu íþróttafélög fatlaðra yrðu stofnuð hér á landi. Fyrsta íþróttafélag hreyfihamlaðra , sem stofnað var á Íslandi var Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík sem stofnað var 31. maí 1974. Þann 8. desember 1974 var annað íþróttafélag hreyfihamlaðra stofnað en það var íþróttafélag fatlaðra á Akureyri sem nú heitir Akur. Eik á Akureyri var fyrsta íþróttafélag þrosakhamlaðra á Ísland en félagið var stofnað 16. maí 1978 og tveimur árum seinna var, 18. maí 1980, var annað íþrottafélag þroskahamlaðra stofnað, Ösp í Reykjavík. Aðildarfélög Íþróttasambands fatlaðra eru nú 20 talsins, staðsett víðs vegar um landið.

19. Geir Sverrisson og verðlaunin – Á Ólympíumóti fatlaðra 1992 í Barcelona vann Geir Sverrisson það frækna afrek að vinna til verðlauna bæði í sundi og frjásum íþróttum. Þannig vann Geir til gullverðlauna í 100 m bringusundi og til bronsverðlauna í 100m hlaupi, afrek sem fáir í heiminum hafa leikið eftir. Geir er einning eini afrkesmaðurinn úr röðum fatlaðra sem valinn hefur verið í landslið ófatlaðra en hann hljóp í boðhlaupssveit Íslands í þremur Evrópubikarkeppnum landsliða á vegum Frjálsíþróttasambands Íslands.

20. LETR á Íslandi - Árið 2013 hófst samstarf ÍF og Special Olympics á Íslandi við íslensku lögregluna vegna alþjóðaverkefnisins LETR ( Law Enforcement Torch Run)
LETR var stofnað í Bandaríkjunum árið 1981 til að afla styrkja og vekja athygli á Special Olympics. Frá 2013 hafa fulltrúar LETR á Íslandi staðið að kyndilhlaupi fyrir Íslandsleika Special Olympics og tekið þátt í ýmsum viðburðum. Þeir hafa einnig verið valdir í alþjóðlegan hóp lögreglumanna sem hlaupið hefur kyndilhlaup fyrir Evrópu og heimsleika Special Olympics. Þá hafa þeir komið að undirbúningi og skipulagi kyndilhlaups alþjóðlegra leika. Árið 2016 tók forseti Íslands þátt í kyndilhlaupi fyrir Íslandsleika og er það i fyrsta skipti sem þjóðhöfðingi tekur þátt í kyndilhlaupi LETR.

21. YAP verkefnið- Árið 2015 hófst innleiðing á YAP ( Young Athlete Project) á Íslandi í samstarfi Special Olympics á íslandi og SO í Rúmeníu.
Markmiðið er að stuðla að því að öll börn fái næga hreyfiþjálfun. Íslenska leiðin var að leita samstarfs við leikskólaumhverfið þar sem flest börn eru. Frá 2015 til 2019 hefur farið fram kynning á verkefninu í leikskólum og bæjarfélögum og helsti samtarfsaðili á Íslandi er heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú.

22. Vetraríþróttir - Uppbygging vetraríþrótta hjá ÍF hefur verið í samstarfi við Challenge Aspen og NSCD Winter Park, Colorado. Samstarf hófst árið 2000 við Challenge Aspen og 2006 við Winter Park. Leiðbeinendur frá USA hafa starfað við námskeið ÍF og VMí Hlíðarfjalli og Bláfjöllum, afreksfólk hefur sótt skíðaþjálfun til USA og Íslendingar hafa sótt fræðslu og ráðgjöf til samstarfsaðila. Einnig hafa fjölskyldur fatlaðra barna, ungar hreyfihamlaðar konur og fleiri sótt námskeið sem skipulögð hafa verið fyrir ÍF hjá NCSD, Winter Park.

23. Íþróttasamband fatlaðra sem Afrekssamband - Að loknu Íþróttaþingi ÍSÍ 2017 var samþykkt ný reglugerð fyrir Afrekssjóð ÍSÍ og staðfesti stjórn sjóðsins í kjölfarið flokkun sérsambanda í afreksflokka. Íþróttasamband fatlaðra var flokkað í A-flokk eða sem Afrekssamband ásamt átta öðrum sérsamböndum í A-flokki eru sérsambönd sem taka reglulega þátt í keppni á hæsta stigi í viðkomandi íþróttagrein með frábærum árangri á síðustu fjórum árum. Auk þess eru gerðar kröfur um umfangsmikið afreksíþróttastarf í sérsambandinu og fjármögnun auk fölmargra annarra atriða sem sérsamböndin þurfa uppfylla. Aðrir flokkar sem sérsambönd innan ÍSÍ falla undir eru B-flokkur, sambönd skilgreind sem Alþjóðasambönd og C-flokkur, sambönd skilgreind eru sem þróunarsamönd.

24. Blöndun/samstarf við önnur sérsambönd - Undangengin ár hefur þróun íþrótta fatlaðra á alþjóðavísu verið í þá átt að aukin samvinna hefur verið milli hinna almennu sérsambanda og íþróttasambanda fatlaðra í hverju landi. Þannig hafa æ fleiri íþróttagreinar sem fatlaðir stunda verið færðar til þess sérsambands sem íþróttagreinin fellur undir. Þessi yfirfærsla hefur einnig átt sér stað á alþjóðavísu þar sem ýmsar íþróttagreinar sem áður voru undir handleiðslu IPC – Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra, heyra nú undir alþjóðasambönd viðkomandi íþróttagreina. Íþróttasamband fatlaðra hefur í gegnum tíðina átt náið og gott samstarf við sérsambönd hinna ýmsu íþróttagreina er fatlaðir stunda og vinnur nú að gerð samstarfssaminga við önnur sérsambönd varðandi sameiginlegt mótahald, sem tryggir alþjóðlega viðurkenningu á þeim árangri sem þar vinnst.

25. Búnaðarsport – Ýmis búnaður hefur litið dagsins ljós síðustu áratugina við íþróttaiðkun fatlaðra. Í dag eru greinarnar orðnar fjölmargar á borð við hjólastólakappaksur, handahjólreiðar, skíðastóla og sérútbúinna siglingabáta. Að miklu leyti gefur búnaðurinn fólki með fötlun tækifæri á því að stunda íþróttir og í fjöldamörgum tilfellum er búnaðurinn vel fallinn til þess að lengja allverulega í íþróttaferli einstaklinga hvort sem um lýðheilsu eða afreksíþróttamennsku er að ræða. Búnaðurinn er kostnaðarsamur og hefur ÍF sett umtalsvert fjármagn í gegnum árin í viðleitni sinni til þess að innleiða sem flestar búnaðsgreinar og skapa þannig fjölbreytni í íþróttaflóru fatlaðra á Íslandi.

Myndir með frétt