Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Tryggvi og Þröstur sæmdir Gullmerki ÍSÍ

21.05.2019

19. Héraðsþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV) var haldið miðvikudaginn 15. maí sl. í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Á þingið voru mættir fulltrúar flestra aðildarfélaga HSV. 

Fyrirferðamesta málið á þinginu var vinna við stefnur og áætlanir sambandsins. Fyrir þingi lágu tillögur að viðbragðsáætlun, jafnréttisáætlun, fræðslu- og forvarnarstefnu, umhverfisstefnu og félagsmálastefnu. Nokkrar umræður urðu í allsherjarnefnd þingsins og var niðurstaða nefndarinnar að vísa framlagðri tillögu að Jafnréttisáætlun HSV til stjórnar að nýju til frekari vinnslu. Þótti nefndinni að vel væri tekið á kynjajafnrétti en nánari útfærslu vantaði varðandi jafnrétti milli ólíkra þjóðfélagshópa, t.d. fólks af erlendum uppruna. Sömuleiðis var niðurstaða nefndarinnar að vísa framlagðri Fræðslu- og forvarnarstefnu HSV til stjórnar til frekari vinnslu með tilliti til samræmis á milli stefnuyfirlýsingar og markmiða, einkum með það í huga hvort einhver markmið ættu betur heima í framlagðri Viðbragðsáætlun HSV. Samþykkt þessara tveggja stefna yrði svo endanlega afgreidd á formannafundi. Þessi tillaga allsherjarnefndar var samþykkt samhljóða af þingfulltrúum. Aðrar tillögur stjórnar, meðal annars fjárhagsáætlun, voru samþykktar samhljóða.

Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, fyrrum formaður og framkvæmdastjóri HSV, var fulltrúi ÍSÍ á þinginu. Ingi Þór afhenti Tryggva Sigtryggssyni og Þresti Jóhannessyni Gullmerki ÍSÍ fyrir þeirra áratuga störf og áhuga á framgangi íþróttamála á Ísafirði.

Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV veitti fjórum einstaklingum silfurmerki HSV; Guðrúnu Ásbjörgu Stefánsdóttur GÍ, Reyni Péturssyni GÍ, Heimi Hanssyni SFÍ og Jóni Hálfdáni Péturssyni Vestra. Hún sæmdi einnig tvo einstaklinga gullmerki sambandsins, þeim Marinó Hákonarsyni og Finni Magnússyni GÍ.

Ásgerður Þorleifsdóttir var endurkjörinn formaður HSV. Nýr í stjórn var kosinn Heimir Hansson í stað Inga Björns Guðnasonar sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa. Ásamt þeim Ásgerði og Heimi sitja nú í stjórn HSV; Hildur Elísabet Pétursdóttir sem var endurkjörin í stjórn, Karl Ásgeirsson og Baldur Ingi Jónasson. Í varastjórn voru endurkjörnar Elísa Stefánsdóttir og Karlotta Dúfa Markan og Margrét Arnardóttir sem kemur ný í varastjórn í stað Heimis Hanssonar.
Einnig var kosið í stjórn Afrekssjóð HSV. Hana skipa Guðný Stefanía Stefánsdóttir, Jakob Einar Jakobsson og Yngvi Gunnlaugsson. Til vara Gísli Jón Hjaltason og Salome Elin Ingólfsdóttir. Í stjórn styrktarsjóðs þjálfara HSV voru kjörin Guðný Stefanía Stefánsdóttir, Jóhann Króknes Torfason og Baldur Ingi Jónasson.
Um miðbik þings var gert matarhlé og var þá borin fram súpa ásamt kaffi og meðlæti, framreitt af fulltrúum Skíðafélags Ísfirðinga. Þingi var slitið um kl. 21.30.

Myndir með frétt