Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Setningarhátíð Smáþjóðaleikanna í kvöld

27.05.2019

Í gærkvöldi fór fram fyrsti fararstjórafundur íslenska hópsins á Smáþjóðaleikunum. Þegar að allir höfðu komið sér fyrir í herbergjum var ákveðið að hittast á skrifstofu ÍSÍ og taka stöðuna. Íslenski hópurinn gistir allur í sömu byggingu í bænum Budva, en allir þátttakendur á leikunum eru á þessu svæði. Stemmningin í hópnum er stórgóð.

Dagurinn í dag fer í að kanna æfinga- og keppnisaðstæður og að undirbúa keppendur fyrir komandi átök. 

Í kvöld fer setningarhátíð Smáþjóðaleikanna 2019 fram. Hátíðin fer fram í gamla bæ Budva, byrjar kl.21 og stendur yfir í 2 klst.

Hér á vefsíðu ÍSÍ verður hægt að fylgjast með íslenska hópnum á Smáþjóðaleikunum 2019.

Vefsíða leikanna.

 

Um Smáþjóðaleika 

 

Hugmyndina um íþróttakeppni smáþjóða Evrópu má rekja aftur til ársins 1981. Það var útbreidd skoðun að íþróttakeppni þar sem smáþjóðir öttu kappi saman gæti orðið til þess að efla anda og hugsjón ólympíuhreyfingarinnar og treysta jafnframt vináttubönd þjóðanna. Þátttökurétt eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Þessar þjóðir eru: Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marínó og Svartfjallaland. Smáþjóðaleikarnir fara fram á tveggja ára fresti í einu af löndunum níu. Þeir voru fyrst haldnir í San Marínó árið 1985, en síðan hafa þeir verið haldnir í Mónakó (1987), Kýpur (1989), Andorra (1991), Möltu (1993), Lúxemborg (1995), Íslandi (1997), Liechtenstein (1999), San Marínó (2001), Möltu (2003), Andorra (2005), Mónakó (2007), Kýpur (2009), Liechtenstein (2011), Lúxemborg (2013), Íslandi (2015), San Marínó (2017) og Svartfjallaland (2019). Með leikunum í San Marínó árið 2017 hófst þriðja umferð leikanna.

Myndir með frétt