Sagan í forgrunni á setningarhátíð Smáþjóðaleikanna

Setningarhátíð Smáþjóðaleikanna 2019 fór fram í kvöld kl.21.00 að staðartíma (kl. 19.00 ísl. tíma). Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir frjálsíþróttakona var fánaberi og leiddi stóran og glæsilegan hóp íslensks íþróttafólks inn á svið.
Þema setningarhátíðarinnar var hápunktarnir úr sögu Svartfjallalands. Hátíðin fór fram fyrir framan veggina í gamla bæjarhluta Budva og var umgjörðin glæsileg. Svartfellski leikstjórinn Nikola Vukcevic sá um að útsetja athöfnina, en farið var ítarlega yfir sögu Svartfjallalands og menningararfleifð. Áhorfandinn var leiddur í gegnum söguleg atvik úr fortíðinni með söng og dansi. Forseti Evrópsku Ólympíunefndarinnar Janez Kocijancic og forsætisráðherra Svartfjallalands Dusko Markovic héldu ávarp. Handboltakonan Bojana Popovic kveikti á Ólympíueldinum.
846 keppendur frá níu löndum munu keppa í 10 íþróttagreinum næstu fimm dagana.
Fleiri myndir má sjá á myndasíðu ÍSÍ.