Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Blakstelpurnar góðar í hörkuleik

30.05.2019

Kvennalandsliðið í blaki spilaði sinn þriðja leik í dag á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi. Fyrir hafði liðið tapað 3:0 gegn gestgjöfunum og unnið San Marínó 3:0. Lúxemborg tapaði 3:0 fyrir San Marínó og vann Liechtenstein 3:1. 

Byrjunarliðið í dag var skipað þeim Jóna Guðlaugu Vigfúsdóttur og Helenu Kristínu Gunnarsdóttur á köntunum, Gígju Guðnadóttur og Söru Ósk Stefánsdóttur á miðjunum, Thelmu Dögg Grétarsdóttur í díó, Ana Maria í uppspil og Kristina Apostolova var í stöðu frelsingja.

Fyrsta hrina fór jöfn af stað en Ísland leiddi yfirleitt með 1-2 stigum. Þangað til að Lúxemborg komst yfir 10:8. Borja tók leikhlé í stöðunni 12:9 þegar mistökin voru orðin of mörg. Þó nokkuð vantaði upp á sóknarleik okkar kvenna í hrinunni og tók Borja síðara leikhléð í 16:10 fyrir Lúxemborg. Í stöðunni 18:10 gerði Borja tvöfalda skiptingu þegar að Birta og Hjördís komu inn á fyrir Valal og Thelmu. Síðar kom Elma inn á fyrir Jónu. Ekkert virtist ganga upp í hrinunni og kláraði Lúxemborg hrinuna 25:12.

Íslensku stelpurnar komu af miklum krafti inn í aðra hrinu og náðu fljótlega góðu forskoti, 15:10 þegar Lúxemborg tók leikhlé. Í stöðunni 17:10 fyrir Ísland kom góður kafli hjá Lúxemborg sem kláraði hrinuna 25:22.

Í þriðju hrinu sýndi íslenska liðið frábæra spilamennsku og hélt forystu frá upphafi til enda og vann hrinuna 25:17. Lið Lúxemborgar kom ákveðið til leiks í 4. hrinu og var yfir 8:5 þegar Borja tók leikhlé. Stelpurnar okkar jöfnuðu 10:10 og voru 20:17 yfir þegar Lúxemborg tók leikhlé. Íslenska liðið gaf þá í og kláraði hrinuna 25:21.

Ísland byrjaði oddahrinuna mjög vel og komst í 4:1. Þá gaf Lúxemborg í og jafnaði 8:8. Íslenska liðið átti meira eftir á lokametrunum og kláraði hrinuna 15:11 eftir æsipennandi lokamínútur og þar með leikinn 3:2.

Fyrirliðinn Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir var stigahæst í leiknum með 26 stig.

Liðið mætir Liechtenstein í fyrramálið kl.9:00 (07:00 ísl).