Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
13

Frábær lokadagur í sundkeppni Smáþjóðaleikanna

30.05.2019

Síðasta keppnisdeginum af þremur er nú lokið í sundkeppni Smáþjóðaleikanna. Í dag bættust við fimm gullverðlaun, ein silfurverðlaun, sjö bronsverðlaun, Íslandsmet og Landsmet og svo átta bætingar einstaklinga í sínum sundum.

Anton Sveinn McKee fékk gullverðlaun í 100 metra bringusundi um leið og hann bætti eigið Íslandsmet frá því á EM50 í Glasgow 2018. Eygló Ósk Gústafsdóttur fékk gullverðlaun í 50 metra baksundi, Kolbeinn Hrafnkelsson fékk gullverðlaun í 50 metra baksundi, Karen Mist Arngeirsdóttir náði silfurverðlaunum í 100 metra bringusundi, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir fékk bronsverðlaun í 50 metra skriðsundi og 50 metra flugsundi ásamt því að bæta tíma sína verulega, Dadó Fenrir Jasminuson fékk bronsverðlaun í 50 metra skriðsundi, Kristinn Þórarinsson náði bronsverðlaunum í 50 metra baksundi, Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir fékk bronsverðlaun í 100 metra bringusundi, María Fanney Kristjánsdóttir fékk bronsverðlaun í 400 metra fjórsundi auk þess að bæta tíma sinn og Þröstur Bjarnason náði bronsverðlaunum í 200 metra skriðsundi.

Íslensku boðsundssveitirnar í 4x100 metra fjórsundi náðu svo gullverðlaunum bæði í kvenna- og karlaflokki. Karlasveitin bætti 2 ára gamalt Landsmet frá því á Smáþjóðaleikunum í San Marínó árið 2017 um tæpa sekúndu. Í því boðsundi synti Anton Sveinn McKee bringusundslegginn á 59,87 sekúndum.

Að auki bættu tíma sína þau Kristófer Sigurðsson í 50 metra skriðsundi, Kolbeinn Hrafnkelsson í 50 metra flugsundi, Bryndís Bolladóttir og Kristín Helga Hákonardóttir í 200 metra skriðsundi.

Í 4x100 metra fjórsundi/boðsundi keppti íslenska kvennasveitin skipuð þeim Eygló Ósk Gústafsdóttur, Karenu Mist Arngeirsdóttur, Katarínu Róbertsdóttur og Jóhönnu Elínu Guðmundsdóttur. Sveitin kom í mark á tímanum 4:20,16 sem skilaði þeim 1. sætinu og þar með gullverðlaunum.

Í 4x100 metra skriðsund/boðsundi íslenska karlasveitin skipuð þeim Kristni Þórarinssyni, Antoni Sveini McKee, Dadó Fenri Jasminusyni og Kristófer Sigurðssyni. Sveitin kom í mark á tímanum 3:46,63 sem skilaði þeim örugglega í fyrsta sæti. Um leið bættu þeir Landsmetið sem var 3:47,67 sett í San Marínó 2017.

Það var ánægður en þreyttur sundhópur sem kom til gististaðar eftir gjöfulan dag. Fyrir þann sem stendur utan við hópinn er augljóst hversu vel þau vinna saman sem lið og með þeim Mladen Tepacevic og Steindóri Gunnarssyni þjálfurum hópsins, Júlíu Þorvaldsdóttur flokkstjóra og Unni Sædísi Jónsdóttur sjúkraþjálfara.

Myndir með frétt