Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Fjórði keppnisdagur á Smáþjóðaleikunum - Samantekt

31.05.2019

Skotíþróttir
Keppni fór fram í loftriffli karla og kvenna á Smáþjóðaleikunum í dag. Í undankeppni í loftriffli karla var Guðmundur Helgi Christensen í 6. sæti með 593.7 stig og komst þar með í úrslit. Í úrslitum greinarinnar endaði hann í 7. sæti á 135.7 stigum, en sigurvegari var Milos Bozovic frá Svartfjallalandi. Í undankeppni í loftriffli kvenna kepptu þær Íris Eva Einarsdóttir og Jórunn Harðardóttir. Íris varð í 5. sæti í undankeppninni með 599.4 stig og komst þar með í úrslit, en Jórunn hafnaði í 11. sæti með 591.6 stig. Í úrslitum greinarinnar hafnaði Íris Eva í 8. sæti en sigurvegari var Sylvie Nockels frá Lúxemborg.

Frjálsíþróttir
Þrjú gullverðlaun unnust í frjálsíþróttakeppni Smáþjóðaleikanna í dag. Nánar má lesa um frjálsíþróttakeppnina í dag hér.

Körfuknattleikur
Einn leikur fór fram í dag í keppni kvenna á Smáþjóðaleikunum en íslenska liðið lék gegn liði Mónakó. Stelpurnar okkar tóku sér fyrsta leikhlutann í að hitna og koma sér í gang en staðan var 26:23 fyrir Ísland. Í öðrum leikhluta var allt annað að sjá vörn okkar stelpna sem settu í lás og sóttu mun ákveðnara hinum megin á vellinum. Staðan í hálfleik 51:28 og ljóst í hvað stefndi. Næsti leikhluti fór 18:13 og sá síðasti 22:18 og öruggur 91:59 sigur í höfn.
Allir leikmenn liðsins komust á blað í leiknum í dag. Embla Kristínardóttir var stigahæst með 14 stig. Helena Sverrisdóttir setti 12 og tók 9 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir setti einnig 12 stig og tók 4 fráköst og Hallveig Jónsdóttir var með 10 stig.
Lokaleikur liðsins er í fyrramálið kl.8:30 (kl. 06:30 að íslenskum tíma). Þá mætir liðið liði Kýpur sem hafa tapað öllum leikjum sínum á mótinu og með sigri verður Ísland í öðru sæti á leikunum og mun fá silfurverðlaun.
Strákarnir leika kl. 10:45 (kl. 08:45 að íslenskum tíma) einnig gegn liði Kýpur en það er leikur upp á 3. sætið.

Borðtennis
Nú er keppni lokið hjá borðtennisliði Íslands á Smáþjóðaleikunum. Í dag fór fram einliðaleikur og spiluðu Magnús Gauti Úlfarsson og Ingi Darvis Rodriguez karlamegin og Aldís Rún Lárusdóttir og Agnes Brynjarsdóttir kvennamegin. Magnús Gauti var næst því að komast upp úr riðli en hann fór inn í lokaleikinn sinn í dag með einn sigur og eitt tap. Að lokum fór það svo að allir keppendur duttu úr leik og hafa því lokið keppni.

Blak
Karlalandsliðið í blaki mætti Mónakó í dag á Smáþjóðaleikunum. Hvorugt liðanna hafði unnið leik á mótinu til þessa. Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Hafsteini og Kristjáni Valdimarssonum, Theódóri Óskari Þorvaldssyni og Ævari Frey Birgissyni á köntunum, Alexander Arnari Þórissyni í díó, Mána Matthíassyni í uppspil og Lúðvíki Má Matthíassyni í stöðu frelsingja.
Ísland vann fyrstu hrinu 25:15. Mónakó vann næstu þrjár hrinur (25:16-25:21-25:22) og þar með leikinn 3:1. Fjórir leikmenn voru stigahæstir, allir með 12 stig. Theódór, Hafsteinn, Alexander og Ævarr.
Síðasti leikur strákanna á mótinu er á morgun gegn Kýpur kl. 12:00 (14:00 ísl).
Íslenska kvennalandsliðið í blaki mætti Liechtenstein á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í morgun. Fyrir leikinn hafði íslenska liðið unnið tvo leiki af þremur en Liechtenstein tapað öllum sínum leikjum. Byrjunarlið Íslands í dag var skipað þeim Helenu Kristínu Gunnarsdóttur og Huldu Elmu Eysteinsdóttur á köntunum, Gígju Guðnadóttur og Særúnu Birtu Eiríksdóttur á miðjunum, Hjördísi Eiríksdóttir í díó, Önu Mariu í uppspil og Kristinu Apostolovu í stöðu frelsingja.
Ísland vann 25:17-25:15-25:21 og þar með leikinn 3:0.
Stigahæst í íslenska liðinu var Hulda Elma Eysteindóttir með 11 stig.

Vefsíða leikanna
Myndasíða ÍSÍ frá Smáþjóðaleikum 2019