Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Þriðji sigur í höfn hjá blakstelpunum

31.05.2019

Íslenska kvennalandsliðið í blaki mætti Liechtenstein á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í morgun. Fyrir leikinn hafði íslenska liðið unnið tvo leiki af þremur en Liechtenstein tapað öllum sínum leikjum. 

Byrjunarlið Íslands í dag var skipað þeim Helenu Kristínu Gunnarsdóttur og Huldu Elmu Eysteinsdóttur á köntunum, Gígju Guðnadóttur og Særúnu Birtu Eiríksdóttur á miðjunum, Hjördísi Eiríksdóttir í díó, Önu Mariu í uppspil og Kristinu Apostolovu í stöðu frelsingja.

Leikurinn fór frekar jafnt af stað en fljótlega náði íslenska liðið góðum tökum á hrinunni. Í stöðunni 19:15 fyrir Ísland gerði Borja tvöfalda skiptingu og komu Thelma og Matthildur inn fyrir Valal og Hjördísi. Þrátt fyrir ágætis kafla hjá Liechtenstein var hrinan aldrei í hættu og Ísland vann hrinuna 25:17.

Byrjunarlið Íslands í annarri hrinu var það sama og í fyrstu. Okkar stelpur náðu fljótt tökum á hrinunni og voru 9:4 yfir þegar Liechtenstein tók leikhlé. Þær héldu áfram að auka forskotið og unnu hrinuna 25:15.

Sama byrjunarlið var í þriðju hrinu. Lið Liechtenstein vaknaði til lífsins í hrinunni og var yfir 12:11 þegar Ísland tók leikhlé. Íslenska liðið kom af krafti aftur inn í hrinuna eftir leikhléð og var yfir 17:13 þegar Liechtenstein tók leikhlé. Ísland vann hrinuna 25:21 og þar með leikinn 3:0.

Stigahæst í íslenska liðinu var Hulda Elma Eysteindóttir með 11 stig.

Liðið spilar síðasta leikinn á Smáþjóðaleikunum á morgun á móti Svartfjallalandi. Tímasetning er ekki klár enn sem komið er.

Myndir með frétt