Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Þrjú gullverðlaun í frjálsum í dag

31.05.2019

Frjálsíþróttakeppninni á Smáþjóðaleikunum 2019 lauk í Svartfjallalandi í dag með frábærum árangri Íslands. Þrjú gullverðlaun, fjögur silfururverðlaun og sex bronsverðlaun hjá íslensku keppendunum á lokadegi. Einnig voru margir að bæta sinn besta árangur, stelpurnar í 4×100 metra boðhlaupi settu aldursflokkamet í flokki 18-19 ára og 20-22 ára og Dagbjartur Daði Jónsson setti aldursflokkamet 20-22 ára í spjótkasti.

Íslenska liðið varð í öðru sæti yfir fjölda verðlauna í frjálsíþróttakeppninni. Níu gull, níu silfur og átta brons. Samtals vann íslenska liðið til 26 verðlauna sem er glæsilegt fyrir 21 manna lið. Kýpur sigraði með tíu gull.

Fyrsta grein dagsins var 110 metra grindarhlaup þar sem Ísak Óli Traustason fékk silfurverðlaun. Hann hljóp á 14,85 sekúndum sem er persónulegt met. Í 100 metra grindarhlaupi kvenna varð María Rún Gunnlaugsdóttir þriðja á 14,65 sekúndum og Fjóla Signý Hannesdóttir fjórða á 14,82 sekúndum.

Í þrístökki bætti Irma Gunnarsdóttir sig og stökk í fyrsta skipti yfir 12 metra utanhúss. Hún stökk 12,09 metra og varð í þriðja sæti. Í karlaflokki keppti Kristinn Torfason fyrir Íslands hönd. Hann stökk 14,18 metra og varð fjórði.

Dagbjartur Daði Jónsson átti frábæran dag í spjótkastinu. Hvert einasta kast hans var langt en það lengsta var 77,58 metrar. Það skilaði honum gullinu í dag og er einnig nýtt aldursflokkamet 20-22 ára.

Spretthörðustu stelpur Íslands, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth héldu yfirráðum sínum í spretthlaupum á leikunum áfram. Þær tóku gull og silfur í 100 metra hlaupi á miðvikudaginn og gerðu það sama í 200 metra hlaupi í dag. Guðbjörg Jóna kom fyrst í mark á 24,26 sekúndum og Tiana Ósk varð önnur á 24,52 sekúndum.

Einnig áttu Íslendingar mann á palli í 200 metra hlaupi karla. Það var Ívar Kristinn Jasonarson sem varð annar á 21,90 sekúndum. Jóhann Björn Sigurbjörnsson hafði unnið sér inn sæti í úrslitum en gat ekki hlaupið vegna meiðsla.

Í 10.000 metra hlaupi varð Elín Edda Sigurðadóttir fimmta á 37:26,83 mínútum í kvennaflokki og Arnar Pétursson varð þriðji á 31:01,54 mínútum.

Í kringlukasti kvenna náði Kristín Karlsdóttir verðlaunasæti. Hún varð þriðja með 49,77 metra kast.

Lokagreinar dagsins voru boðhlaup. Keppt var í 4×100 og 4×400 metra boðhlaupi í karla- og kvennaflokki. Íslensku sveitirnar komust á verðlaunapall í öllum fjórum greinunum.

Í 4×100 metra hlaupi kvenna varð íslenska sveitin önnur á 45,96 sek. Það var sami tími og kýpverska sveitin en hún var sjónarmun á undan. Í sveitinni voru Birna Kristín Kristjánsdóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir, Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Þær eru allar fæddar á árunum 2000-2002 og því varð tími þeirra nýtt aldursflokkamet 18-19 og 20-22 ára.
Í 4×100 metra hlaupi karla varð íslenska sveitin í þriðja sæti. Í sveitinni voru Kristinn Torfason, Kormákur Ari Hafliðason, Ísak Óli Traustason og Ívar Kristinn Jasonarson.

Íslenska 4×400 metra boðhlaupssveit kvenna fékk gullverðlaun. Í sveitinni voru Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Fjóla Signý Hannesdóttir, María Rún Gunnlaugsdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir. Þær hlupu á 3:49,42 mínútum.

Í 4×400 metrum hjá körlunum voru Ísak Óli Traustason, Hlynur Andrésson, Kormákur Ari Hafliðason og Ívar Kristinn Jasonarson. Þeir urðu í þriðja sæti á tímamum 3:18,45 mínútur.


Myndir með frétt