Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Landslið karla í blaki hefur lokið leik

01.06.2019

Karlalandsliðið í blaki spilaði sinn síðasta leik í dag á móti Kýpur á Smáþjóðaleikunum. Íslenska liðið hafði ekki unnið leik á mótinu fyrir leikinn, en tekið eina hrinu í þeim öllum. 

Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Hafsteini og Kristjáni Valdimarssonum, Theódóri Óskari Þorvaldssyni og Ævari Frey Birgissyni á köntunum, Mána Matthíassyni í uppspili, Alexander Arnari Þórissyni í díó og Ragnari Inga Axelssyni í stöðu frelsingja.
Fyrsta hrina fór ágætlega af stað en síðan gáfu Kýpverjar í og voru 16:12 yfir þegar Ísland tók leikhlé. Kýpur hélt áfram að auka við forskotið og kláraði hrinuna 25:15.

Byrjunarlið Íslands í annarri hrinu var það sama og í fyrstu nema Benedikt Baldur Tryggvason kom inn á fyrir Ævar Frey. Íslensku strákarnir byrjuðu aðra hrinu illa og tók íslenska liðið sitt annað leikhlé í stöðunni 11:1 fyrir Kýpur. Kýpur hafði yfirburði í hrinunni og kláraði hana 25:13.

Í þriðju hrinu var mjög breytt byrjunarlið. Filip í uppspili, Elvar og Alexander á miðju, Lúðvík og Benedikt á köntunum og Bjarki í díó. Lítið gekk í hrinunni hjá íslensku strákunum til að byrja með og Kýpverjar náðu góðu forskoti. Undir lok hrinunnar kom ágætis kafli hjá íslenska liðinu en það dugði ekki til og Kýpverjar kláruðu hrinuna 25:16 og þar með leikinn 3:0.

Stigahæstur í íslenska liðinu var Alexander Arnar Þórisson með 8 stig.