Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Göngum í skólann - Saga frá skóla

10.09.2019

Göngum í skólann 2019 fer vel af stað en alls 71 skóli er skráður til þátttöku í verkefninu í ár. Víkurskóli sendi nýlega inn frásögn og myndir á vefsíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is, en þátttökuskólar eru hvattir til þess að senda myndir, frásagnir og/eða myndbönd af verkefninu. Smelltu hér til þess að senda inn efni.

„Víkurskóli tekur þátt í Göngum í skólann og hófst verkefnið stundvíslega á fyrsta degi verkefnisins þann 4. september. Í Víkurskóla eiga þess ekki allir kost að koma hjólandi eða gangandi í skólann þar sem hluti nemenda er í skólaakstri og því munum við brydda upp á ýmsu utan dyra, göngu, hlaupi og leikjum á þessu tímabili. Við erum svo heppin að næsta nágrenni Víkurskóla er ein risa útikennslustofa. Fjölmargar gönguleiðir og fjölbreytt náttúra. Þá verður fræðsla um hvernig best og öruggast er að haga ferðum sínum í umferðinni. Á fyrsta degi verkefnisins fór allur skólinn í hressilegan göngutúr í Víkurfjöru fyrir hádegismatinn og notaði tækifærið í leiðinni að plokka rusl á gönguleiðinni. Allir komu mjög hressir tilbaka.“

ÍSÍ vonast til þess að fá fleiri skemmtilegar frásagnir og myndir af því sem fer fram í skólunum í tilefni af verkefninu.

 

Verkefnið er orðið að árlegum viðburði í mörgum skólum og býður upp á lærdómsríka og skemmtilega leið fyrir nemendur til að fræðast um umferðarreglur, öryggi og umhverfismál. Þeir skólar sem ætla að taka þátt í Göngum í skólann geta farið á vefsíðu Göngum í skólann, www.gongumiskolann.is og í „Skráning“. Hægt að skrá skóla til leiks allan tíman á meðan verkefnið er í gangi og er það afar einfalt.

Skrá skóla hér á vefsíðu Göngum í skólann

Um verkefnið
Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Á síðasta ári tóku milljónir barna frá yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt í gegnum árin og fyrsta árið voru þátttökuskólar 26 en alls 73 skólar skráðu sig til leiks árið 2018. 

Myndir með frétt