Fyrirlestrar Sýnum karakter aðgengilegir
Nú eru fyrirlestrar frá fjórðu ráðstefnu Sýnum karakter sem bar heitið „Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter?“ aðgengilegir á Youtube síðu Sýnum karakter hér.
Ráðstefnan fór fram í Háskólanum í Reykjavík í byrjun október og voru sex erindi flutt. Dr. Viðar Halldórsson félagsfræðingur og hugmyndasmiður Sýnum karakter hélt erindi um íþróttir og áhrif móta á unga iðkendur. Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar, sagði frá því hvernig félagið vinni um þessar mundir að því að innleiða hugmyndafræði verkefnisins Sýnum karakter í allar deildir aðildarfélaga, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, sagði frá breytingum á mótafyrirkomulagi í áhaldafimleikum barna og Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ, sagði frá því hvernig fótbolti yngri flokka hafi breyst. Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt á íþróttafræðasviði HR, sagði frá handboltaleikjum barna og ýmsum nýjungum og André Lachance frá Sport for Life í Kanada sagði frá breyttum hugsanahætti í þjálfun og íþróttaiðkun. Að lokum lýsti Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fjölmiðlakona þeim jákvæðu áhrifum sem íþróttaiðkun hafi haft á fatlaðan son sinn og fjölskylduna. Ráðstefnustjóri var Pálmar Ragnarsson.
Markmið verkefnisins Sýnum karakter snýr að þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum og er verkefninu ætlað að hvetja þjálfara og íþróttafélög til að leggja enn meiri og markvissari áherslur á að byggja upp góðan karakter hjá iðkendum og gera þá betur í stakk búna til að takast á við lífið auk þess að ná árangri í íþróttum. Sýnum karakter er á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands.