Bogfimisamband Íslands stofnað
Stofnþing Bogfimisambands Íslands (BFSÍ) var haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í dag, 1. desember 2019. Með stofnun þessa nýja sérsambands eru sérsambönd ÍSÍ orðin 33 talsins.
Bogfiminefnd ÍSÍ var starfandi innan vébanda ÍSÍ um langt skeið og hafði umsjón með útbreiðslu og uppbyggingu íþróttarinnar á Íslandi, undir leiðsögn ÍSÍ. Undanfarin ár hefur svo verið unnið markvisst að stofnun sérsambands um bogfimi enda íþróttin vaxið hratt á landsvísu. Íþróttin er nú stunduð í tíu íþróttafélögum innan vébanda níu íþróttahéraða.
Ólafur Gíslason var kjörinn fyrsti formaður sambandsins en aðrir í stjórn BFSÍ voru kjörin til fjögurra ára þau Guðmundur Örn Guðjónsson varaformaður og Ásdís Lilja Hafþórsdóttir ritari og Albert Ólafsson gjaldkeri og Haraldur Gústafsson meðstjórnandi til tveggja ára.
Varamenn stjórnar eru Astrid Daxböck, Alfreð Birgisson, Kelea Quinn.
Lög sambandsins voru samþykkt samhljóða og kynning fór fram á drögum að afreksstefnu nýja sambandsins. Afreksstefnan verður unnin áfram af stjórn og lögð fyrir á næsta formannafundi BFSÍ til kynningar. Afreksstefnan verður síðan lögð fram til afgreiðslu á næsta reglulega þingi sambandsins. Hafsteinn Pálsson, 2. varaforseti ÍSÍ, var þingforseti.
Bogfimi er ólympísk íþróttagrein og þó að Íslandi hafi ekki enn teflt fram keppanda í bogfimi á Ólympíuleikum þá hefur Ísland átt þátttakendur á alþjóðlegum mótum, svo sem Evrópuleikunum árið 2015 og 2019. Keppendur í bogfimi áttu til að mynda góðu gengi að fagna á Smáþjóðaleikunum í San Marínó 2017.
Á stofnþingi sambandsins í dag var lesið upp bréf frá Alþjóðabogfimisambandinu þar sem Albert Ólafssyni og Sveinbjörgu Rósu Sumarliðadóttur, í Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi, var óskað innilega til hamingju með tvö heimsmet sem þau settu í Heimsbikarmóti í opnum flokki í Berlín í júlí síðastliðnum. Líney Rut Halldórsdóttir afhenti Alberti viðurkenningar, sem fylgdu erindi Alþjóðasambandsins, en Sveinbjörg Rósa mun fá sínar viðurkenningar síðar þar sem hún komst ekki til þingsins.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands óskar hinu nýja sambandi og nýkjörinni stjórn innilega til hamingju með þennan áfanga og velfarnaðar í starfi.