Ársskýrsla Afrekssjóðs ÍSÍ 2019
Ársskýrsla Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2019 er nú aðgengileg hér á vefsíðu ÍSÍ.
Í ársskýrslunni er fjallað um styrkveitingar fyrir árið 2019 og uppgjör styrkja vegna ársins 2018. Heildarúthlutun styrkja til sérsambanda ÍSÍ vegna verkefna ársins 2019 var 452,9 m.kr. en fyrir árið 2018 var endanleg úthlutun rúmar 339 m.kr. Í ársskýrslunni er fjallað um áherslur sjóðsins í styrkveitingum og sundurliðað hvernig hver áhersluliður er styrktur í þremur flokkum sérsambanda. 27 sérsambönd ÍSÍ hlutu styrk vegna verkefna ársins 2019 og er heildarkostnaður verkefna þeirra tæpar 1.350 m.kr. Afrekssjóður ÍSÍ styrkir að meðaltali um þriðjung kostnaðar við þetta afreksstarf, en í skýrslunni má sjá hvernig sérsambönd fjármagna með öðrum hætti þann kostnað sem eftir stendur.
Samhliða fjárhagsuppgjörum sérsambanda hefur ÍSÍ safnað saman upplýsingum um þá aðila sem eru í landsliðsverkefnum sérsambanda. Alls voru það 1.463 aðilar sem kepptu fyrir Íslands hönd á árinu 2018 og var hlutfall kvenna 45% á móti 55% karla.
Úthlutun Afrekssjóðs ÍSÍ hefur aldrei verið eins há eins og fyrir árið 2019, en því má þakka hækkun á framlagi ríkisins til sjóðsins sem samið var um á árinu 2016. Fyrir árið 2019 var framlag ríkisins 400 m.kr. en auk þess nýtur sjóðurinn framlags af tekjum íþróttahreyfingarinnar frá Íslenskri getspá.
Nánari upplýsingar má nálgast hjá sviðsstjóra Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ, Andra Stefánssyni, í síma 8631525 eða á andri@isi.is.