Vilhjálmur Einarsson látinn
Vilhjálmur Einarsson Heiðursfélagi ÍSÍ er látinn, 85 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum laugardaginn 28. desember.
Vilhjálmur er meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar og til marks um yfirburði hans í þrístökki þá stendur Íslandsmet hans, stökk upp á 16,70 m árið 1960, enn í dag. Hann vann til silfurverðlauna fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og var 5 sinnum kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna, oftar en nokkur annar. Vilhjálmur var kjörinn Heiðursfélagi ÍSÍ á 67. Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2004 og þegar Heiðurshöll ÍSÍ var sett á laggirnar, á 100 ára afmæli ÍSÍ árið 2012, var Vilhjálmur útnefndur í höllina, fyrstur allra. Vilhjálmur var einnig handhafi Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála.
Vilhjálmur lagði mikið af mörkum til íslenskra fræðslu- og æskulýðsmála. Hann var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1957-1958; skólastjóri við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1959 vorönn; kennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar, 1959-1960, og kennari við Samvinnuskólann á Bifröst, 1959-1965. Þá var Vilhjálmur skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti á árunum 1965-1979 á miklu blómaskeiði skólans. Loks gegndi Vilhjálmur starfi skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum frá upphafi skólans 1979 til ársins 2001 og vann þar mikið brautryðjandastarf. Frá 2001 var Vilhjálmur um árabil stundakennari við Menntaskólann á Egilsstöðum og árið 2001 stofnaði hann Námshringjaskólann, sem var í námskeiðaformi. Vilhjálmur stofnaði bókaforlagið Að austan, sem gaf út tvær bækur: Magisterinn og Silfurmaðurinn. Hann var formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar 1967-1970 en þá var m.a. Sumarhátíðin í Húsafelli sett á laggirnar.
Vilhjálmur lætur eftir sig eiginkonu, Gerði Unndórsdóttur, og synina Rúnar, Einar, Unnar, Garðar, Hjálmar og Sigmar, auk 19 barnabarna og 14 barnabarnabarna.
Vilhjálmur var alla tíð í góðum tengslum við ÍSÍ og mætti ötullega til helstu viðburða á vegum sambandsins. Stjórn og starfsfólk ÍSÍ sendir Gerði, eiginkonu Vilhjálms og fjölskyldunni allri dýpstu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Vilhjálms Einarssonar.
Útförin fer fram í Hallgrímskirkju 10. janúar nk. kl. 15:00.