Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Heiðranir á ársþingi UMSK

09.03.2020

96. ársþing Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) var haldið þann 3. mars sl. í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

ÍSÍ veitti á ársþinginu þremur einstaklingum viðurkenningu fyrir ósérhlífið starf á vegum íþróttahreyfingarinnar um árabil, þeim Magnúsi Gíslasyni, Eiríki Mörk og Kristínu Finnbogadóttur.

Magnús Gíslason hlaut Gullmerki ÍSÍ, en hann stofnaði Handknattleiksfélag Kópavogs (HK) ásamt sjö öðrum 12 ára strákum í Kársnesskóla haustið 1969. Magnús var kjörinn formaður félagsins, en HK var síðan formlega stofnað 26. janúar 1970.

Eiríkur Mörk hlaut Silfurmerki ÍSÍ. Eiríkur kom fyrst til starfa í frjálsíþróttadeild Breiðabliks sem forystumaður í foreldraráði og var strax ljóst að um ötulan forystumann var að ræða. Fljótlega eða árið 2011 var hann kjörinn formaður deildarinnar og sinnti hann því starfi með mikilli prýði. Auk starfa í frjálsíþróttadeild Breiðabliks hefur Eiríkur setið og situr enn í varastjórn Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) þar sem hann hefur unnið mjög ötullega.

Kristín Finnbogadóttir hlaut Silfurmerki ÍSÍ, en hún hefur starfað hjá Gróttu frá árinu 2002. Kristín, eða Gitta eins og hún er kölluð, starfaði fyrstu 16 árin sem framkvæmdastjóri félagsins en gegnir nú starfi fjármálastjóra. Gitta hefur í starfi sínu notið ómældra vinsælda félagsmanna og annarra þeirra sem leitað hafa á skrifstofu félagsins. Á fyrstu starfsárum sínum var hún eini starfsmaðurinn á skrifstofu Gróttu og sinnti öllum þeim erindum sem á skrifstofuna bárust.

Hafsteinn Pálsson, annar varaforseti framkvæmdastjórnar ÍSÍ, afhenti Kristínu, Magnúsi og Eiríki viðurkenningarnar.

Myndir með frétt