Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Hvatning til íþróttafólks

06.04.2020

Tilkynnt hefur verið að Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra (Paralympics) sem fara átti fram á þessu ári í Tókýó sé frestað og verða íþróttaviðburðirnir haldnir ári síðar en áætlað var. Fjölmörgum öðrum alþjóðlegum viðburðum hefur einnig verið aflýst eða frestað um lengri eða skemmri tíma.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ vill koma eftirfarandi á framfæri við afreksíþróttafólkið sem hefur unnið sér rétt til keppni á Ólympíuleikunum eða Ólympíumóti fatlaðra eða stefnir að þátttöku í öðrum íþróttaviðburðum: „Nú er ljóst að Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 og Ólympíumóti fatlaðra hefur verið frestað. Þetta hefur áhrif á marga, m.a. okkur sem undirbúum þátttöku Íslands hvort heldur er ÍSÍ eða sérsambönd ÍSÍ. Allra mest hlýtur ástandið í heiminum þó að hafa áhrif á afreksíþróttafólkið okkar sem hefur stefnt að þátttöku í stórmótum í mörg ár og miðað allar sínar áætlanir við tímasetningu viðburðanna. Nú þarf að endurmeta stöðuna og endurhugsa allar áætlanir. Það krefst úthalds, þolinmæði, jákvæðni og aðlögunarhæfni. Við hjá ÍSÍ viljum senda íslensku íþróttafólki okkar bestu hvatningarkveðjur. Okkur finnst þið standa ykkur sérlega vel og dáumst að því æðruleysi og þeirri jákvæðni sem þið sýnið í erfiðum aðstæðum. Við fyllumst stolti yfir því hvað þið eruð lausnamiðuð í erfiðri stöðu og höfum alla trú á því að þið verðið í ykkar besta formi þegar að leikunum kemur.

Við hjá ÍSÍ höldum hiklaust áfram undirbúningi fyrir Ólympíuleikana og erum í nánu sambandi við Íþróttasamband fatlaðra hvað varðar þátttöku Íslands á Ólympíumóti fatlaðra. Við tökum einn dag í einu. Við vitum að þið íþróttafólkið verðið líka tilbúin í slaginn. Gangi ykkur sem allra best í ykkar undirbúningi!“