Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
17

Við erum í baráttuhug

09.04.2020

Ólympíuleikarnir munu fara fram í Tókýó frá 23. júlí til 8. ágúst 2021, ári eftir tilætlaðan tíma. Íslenskt frjálsíþróttafólk keppist nú um að endurskipuleggja áætlanir sínar og margir hverjir stefna á Ólympíuleikana 2021. Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) hefur átt keppendur á Ólympíuleikum frá 1912, þ.e. nánast frá upphafi þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum, sem hófst árið 1908 með þátttöku í grísk-rómverskri glímu.

Frjálsíþróttasambandið hefur tvívegis átt keppanda sem hefur unnið til verðlauna á Ólympíuleikum, Vilhjálmur Einarsson, silfurverðlaunahafi í þrístökki árið 1956 og Vala Flosadóttir bronsverðlaunahafi í stangarstökki árið 2000. Enginn íslenskur frjálsíþróttamaður hafði unnið sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó þegar að ákvörðun var tekin um að fresta leikunum.

Guðmundur Karlsson, framkvæmdastjóri FRÍ, segir að frjálsíþróttafólk á Íslandi og starfsfólk í kringum FRÍ sé enn að átta sig á stöðunni, en að vonir FRÍ um að eiga keppanda á leikunum 2021 séu enn góðar:

„Það eru auðvitað allir að reyna að átta sig á stöðunni. Í raun er þetta þannig að þeir sem hafa nú þegar náð lágmörkum í frjálsum eru inni á Ólympíuleikunum á næsta ári. Í okkar tilviki hafði því miður enginn náð lágmarki. Lágmörkin eru áfram þau sömu en spurningin er hve mörg sæti verða kvótasæti og er þá miðað við sæti á heimslista. Til þess að útskýra það betur þá eru ákveðin lágmörk sem íþróttafólk þarf að ná til þess að ná inn á Ólympíuleikana. Tíminn til að ná lágmörkum er frá 1. desember nk. til 29. júní 2021. Ef enginn frá landinu nær lágmarki má velja einn karl eða konu til keppni og þá þann einstakling sem er efstur á heimslista. Lokasamþykki er síðan háð tæknistjóra Ólympíuleikanna. Að auki eru ákveðið margir sem komast inn í hverja og eina grein. Ef að 32 ná lágmarki í sleggjukasti/kringlukasti þá eru engin laus sæti í viðbót, en ef að sem dæmi 25 ná lágmarki þá eru í raun 7 laus sæti og þá eru það þeir 7 næstu sem eru efstir á heimslistanum sem fá boð. Það opnast á þennan möguleika þegar allar lágmarkaskráningar eru komnar inn, 2. júlí 2021 og síðan lokast viðbótin 5. júlí 2021. Það gengur þannig fyrir sig að þeir íþróttamenn sem eru næstir inn fá boð og þurfa að samþykkja, en ef ekki þá færist rétturinn áfram. Þetta getur tekið alveg þrjá daga að klára. Hér ættum við Íslendingar að eiga einhverja möguleika en hluti af því sem er óljóst er raunverulega sú staðreynd að hætt hefur verið við mörg mót sem gefa góð stig. Við vonum auðvitað að Evrópumeistaramótið í París fari fram á tilætluðum tíma, 25. – 31. ágúst 2020, en það gefur góð stig á heimslista.“

Allir að gera sitt besta

„Undirbúningur FRÍ og íslensks íþróttafólks lengist í raun og kannski erfitt að meta hvaða áhrif það hefur fyrr en einhver mót fara í gang. Íslenskt frjálsíþróttafólk er að reyna að æfa sem best það getur en það er ekki auðvelt. Stemmingin er samt þokkaleg í fólki. Auðvitað eru almenn vonbrigði að komast ekki á mót eins og Bikarkastmót Evrópu, heimsmeistaramótið í hálfu maraþoni o.fl., en þar var búið að kaupa öll flug og allt klárt í raun. Þrátt fyrir þessar aðstæður sem eru í þjóðfélaginu og í heiminum í dag erum við í baráttuhug og allir að reyna að gera sitt besta úr aðstæðum. Um leið og veður skánar hér heima þá verður hægt að æfa í fámenni. Okkar kastarar eru farnir að æfa sjálfir úti á fullu þrátt fyrir kulda og það íþróttafólk sem býr erlendis er í sömu stöðu nema í betra veðri. Varðandi möguleika okkar fólks á að komast inn á leikana þá á Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir spretthlaupari meiri möguleika að ná inn 2021 en ef leikarnir hefðu verið í ár. Á móti hefur Ásdís Hjálmsdóttir keppandi í spjótkasti gefið út að hún ætli ekki að reyna að ná inn á Ólympíuleikana 2021,“ segir Guðmundur.

Íslenskt frjálsíþróttafólk á samfélagsmiðlum

 Vilji fólk fylgjast með frjálsíþróttum á Íslandi þá má fylgja Instagram síðu FRÍ. Íþróttafólk hefur verið duglegt að setja inn myndbönd frá heimaæfingum og FRÍ deilir því áfram á Instagram.

FRÍ vill í ljósi þeirra aðstæðna sem þjóðin og heimsbyggðin öll standa frammi fyrir vekja athygli á að um verulega röskun geti orðið að ræða er varðar mótahald í frjálsíþróttum á Íslandi árið 2020. Það er um að gera að fylgjast með vefsíðu FRÍ á næstu vikum til þess að vera upplýstur um stöðu mála.

Hér má sjá íslenska keppendur á Sumarólympíuleikum frá upphafi.

Instagram síða FRÍ

Myndin með fréttinni er frá ágúst 2019 þegar að landslið Íslands í frjálsíþróttum sigraði Evrópudeild sína í Norður-Makedóníu. Guðmundur er þriðji frá vinstri í neðri röð.