Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Fimleikadeild Gróttu með heimaæfingar

17.04.2020

Hefðbundið íþróttastarf hjá Gróttu lagðist niður þann 16. mars sl. Síðan þá hafa þjálfarar í Gróttu reynt að sinna þörfum iðkenda eftir bestu getu með því að útbúa heimaæfingar og deila þeim í gegnum rafræna miðla.

Fimleikadeildin hefur verið iðin við að deila æfingum með iðkendum í gegnum miðla Gróttu. Eva Katrín Friðgeirsdóttir, yfirþjálfari hópfimleika í Gróttu, hefur stjórnað æfingum í beinni útsendingu í gegnum facebook síðu Gróttu og verið með Vigdísi Evu 8 ára sér til aðstoðar. „Æfingarnar eru hugsaðar fyrir alla þá sem vilja hressa upp á hverdagsleikann“, segir Eva Katrín.

Fimleikadeildin hefur deilt ýmsu öðru á tímum samkomubanns. Það nýjasta er þátttökukeppni hjá öllum grunnhópunum í fimleikum sem hófst 14. apríl sl. og lýkur 4. maí nk. Keppnin virkar þannig að þegar iðkandinn klárar heimaæfingu skráir hann nafn sitt í skjal og fer í lukkupott. Því oftar sem iðkandinn tekur þátt í heimaæfingunum því líklegri er hann til að vinna frábæra vinninga frá Gróttu. Einnig fór fram fimleikabingó um páskana sem iðkendur gátu spreytt sig á. Sjá má bingóið á mynd sem fylgir með fréttinni.

„Einnig hafa heimaæfingar fyrir grunnhópa verið birtar í gegnum instagram síðu félagsins, grottafimleikar. Í þessari viku hófust zoom æfingar og verða þær einu sinni í viku þar til venjulegar æfingar hefjast“, segir Eva Katrín að lokum.

Frábært er að sjá hversu vel mörg sérsambönd, íþróttafélög og deildir eru að sinna þörfum iðkenda sinna með heimaæfingum og notkun á rafrænum miðlum til að miðla efni.

Hér á youtube síðu Fimleikasambands Íslands má sjá fimleikaæfingar sem hægt er að gera heima

Hér fyrir neðan má sjá Evu Katrínu og Vigdísi Evu stjórna æfingu fyrir iðkendur:

Myndir með frétt