Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Gleðiefni að geta synt aftur

06.05.2020

Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru hafa áætlanir Sundsambands Íslands (SSÍ) óhjákvæmilega breyst. Öllum er nú ljóst að Ólympíuleikunum í Tókýó 2020 hefur verið frestað um eitt ár en þeir munu fara fram 23. júlí til 8. ágúst 2021. Sundsamband Íslands hefur sent sundfólk til þátttöku á Ólympíuleikum á flestalla leika frá árinu 1948 og þegar tilkynnt var um frestun leikanna 2020 hafði einn sundmaður tryggt sig inn á leikana, Anton Sveinn McKee. Fleiri stórmótum í sundi hefur verið frestað. Evrópumeistaramótinu í 50m laug sem átti að fara fram í Búdapest í Ungverjalandi um miðjan maí 2020 hefur verið frestað um eitt ár og heimsmeistaramótið í 50m laug sem fara átti fram í Japan 2021 hefur verið fært til 13. - 29. maí 2022.

Ingibjörg Helga Arnardóttir, framkvæmdastjóri SSÍ, segir fyrstu viðbrögð hjá íslensku sundfólki hafi verið að nú hafi þau meiri tíma til undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. „Afreksfólkið okkar var alls ekki neikvætt og mér vitandi hefur enginn tekið ákvörðun um að hætta. Margir eru þó enn að skoða þá stöðu sem komin er upp og endurmeta sín áform. Fleiri stórmótum hefur verið frestað. Evrópumeistaramótinu í 50m laug var frestað en nú er búið að ákveða nýja dagsetningu. Vegna frestunar Ólympíuleikanna mun heimsmeistaramótið í 50m laug í Japan sem fara átti fram 2021 færast til maí 2022 en því miður er enn mörgum spurningum ósvarað vegna faraldursins svo að hægt sé að gera fullmótuð plön langt fram í tímann.“

Sundfólk hefur ekki getað æft sund síðan samkomubann var sett á þann 20. mars sl. Þjálfarar hafa þó verið mjög duglegir að halda sundfólkinu við efnið með rafrænum samskiptum sem hefur hjálpað þeim að halda sér í æfingu. „Síðastliðnar vikur hafa verið erfiðar hjá sundfólki eins og hjá okkur öllum ekki síst vegna þess að erfitt er að halda sér í æfingu í sundi án þess að komast í sundlaug. Meðan á samkomubanni stóð sendi SSÍ sóttvarnalækni formlega beiðni um undanþágu til að sundmenn gætu stundað æfingar þrátt fyrir bann samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra. SSÍ lagði fram ítarlegar tillögur um mögulega framkvæmd sem hlustað var á. Það var því mikið gleðiefni þegar sundfólk gat hafið æfingar á ný 4. maí“, segir Ingibjörg Helga.

SSÍ telur að fleiri sundmenn eigi möguleika á að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. „Nú hefur sundfólk góðan tíma til að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Við teljum og vonum að fleiri sundmenn geti bæst í hópinn með Antoni Sveini McKee og náð lágmarki á leikana 2022. Það eru líka önnur tímamót hjá SSÍ sem hægt er að gleðjast yfir. Eyleifur Jóhannesson hefur verið ráðinn yfirmaður landsliðsmála hjá SSÍ og kemur hann til starfa í haust og við hlökkum mikið til samstarfsins“, segir Ingibjörg Helga.

Framundan eru nokkur mót sem fresta þurfti á meðan á samkomubanninu stóð. SSÍ ætlar að halda Aldursflokkameistaramótið og Íslandsmeistaramótið í 50m laug í júlí. Nánari dagsetningar verða auglýstar síðar á vefsíðu SSÍ, www.sundsamband.is/.

Á myndunum með fréttinni má sjá annars vegar Ingibjörgu Helgu ásamt landsliðshóp Íslands í sundi á Tenerife í febrúar sl. og hins vegar Ingibjörgu Helgu og Eyleif.

Myndir með frétt