Glæsilegur nýr Kvennahlaupsbolur
Nýr og endurhugsaður Kvennahlaupsbolur var afhjúpaður með viðhöfn í dag, 22. maí. Bolurinn er tákn nýrra tíma, hugsaður frá grunni og slær tóninn fyrir nýja hugsun. Miðasala fyrir hlaupið sem og forsala bola er hafin á www.tix.is.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ 2020 fer fram 13. júní, 30 árum eftir að fyrsta kvennahlaupið var haldið. Árið 1990 var markmiðið að hvetja konur til hreyfingar og almennrar þátttöku í íþróttastarfi og óhætt að segja að það hafi tekist; í dag á Ísland afrekskonur á öllum sviðum íþrótta og almenn hreyfing með besta móti. Árið 2020 er markmið hlaupsins að hvetja konur til þess að gera hlutina á eigin forsendum og nær sú hugsun langt út fyrir hlaupið og líkamsrækt. Kvennahlaup nútímans snýst um hreyfingu sem hentar hverjum og einum, samveru kynslóðanna, líkamsvirðingu, sanngirni, umhverfismeðvitund og valdeflingu. Einkunnarorð Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ 2020 eru „Hlaupum saman“.
Til að mæta nýjum tímum þarf nýja hugsun. Hinn klassíski Kvennahlaupsbolur hefur verið einkennismerki hlaupsins um árabil og því fylgdi því talsverð eftirvænting í hvert skipti að sjá hvaða litur yrði á bolunum og þannig hlaupinu öllu það árið. Árið 2020 sjáum við nýjan bol hugsaðan frá grunni en það er Linda Árnadóttir lektor í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og eigandi Scintilla sem hannar. Bolurinn er bæði fallegur og praktískur, hentar afar vel sem hlaupa- og æfingaflík en nýtist einnig við önnur tilefni. Bolurinn er 100% endurunninn, úr lífrænni bómull og endurunnu plasti.
Bolurinn er til í takmörkuðu upplagi, seldur á www.tix.is og í verslun Scintilla að Laugavegi 40 þar sem hægt er að máta. 50 fyrstu sem kaupa bol á Tix fá fallegan taupoka í kaupbæti en rétt er að taka fram að kaup á bolnum gefur þátttökurétt í hlaupinu. Í takt við þessa nýju umhverfisstefnu hlaupsins má með einföldum hætti greiða aðeins fyrir þátttöku í hlaupinu á www.tix.is. Jafnframt hefur verið ákveðið að afnema útdeilingu verðlaunapeninga en í gegnum tíðina hafa allir þátttakendur farið heim með verðlaunapening.
Konur á öllum aldri tóku þátt í myndatökum fyrir auglýsingaherferð Kvennahlaupsins í ár. Konurnar eru: Andrea Jónsdóttir, Arney Sif Zomers, Donna Cruz, Eliza Reid, Elín Metta Jensen, Emma Dís Örvarsdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Írena Dúa Örvarsdóttir, Margrét Erla Maack, Martha Ernstdóttir, Silja Úlfarsdóttir og Viktoría Ósk Bernhardsdóttir. Þær munu mæta á afhjúpunina í dag og myndirnar verða einnig til sýnis.
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram þann 13. júní á yfir 80 stöðum á landinu og allir geta tekið þátt. Fjölmennustu hlaupin fara fram í Garðabæ og Mosfellsbæ. Í ljósi Covid–19 verða gerðar ráðstafanir um fjölda þar sem það á við og allar reglur virtar skilyrðislaust. Þátttakendur eru hvattir til að gera sínar eigin ráðstafanir og virða þessar aðstæður.
Nánari upplýsingar um hlaupastaði og tímasetningar birtast á næstu dögum á www.kvennahlaup.is. Hlaupum saman laugardaginn 13. júní. Miðasala fyrir hlaupið sem og forsala bola hefst í dag kl. 12:30 á www.tix.is.
Afhjúpunin var sýnd í beinni útsendingu hér á Facebook síðu Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ.