Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Alfreð Þorsteinsson Heiðursfélagi ÍSÍ látinn

02.06.2020

Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi borgarfulltrúi og Heiðursfélagi ÍSÍ, lést á sjúkrahúsi í Reykjavík 27. maí síðastliðinn, 76 ára að aldri.

Alfreð æfði og keppti í knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Fram þegar hann var barn og unglingur og þjálfaði síðar yngri flokka félagsins um skeið. Hann var formaður Fram árin 1972-1976 og aftur 1989-1994 og átti sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ um tíu ára skeið, árin 1976-1986. Að auki gegndi hann ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna í gegnum tíðina og var virkur í hópi heiðursfélaga ÍSÍ og Fram. 

Í öðrum störfum sínum, ekki síst á vettvangi Reykjavíkurborgar, vann Alfreð einnig ómetanlegt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar með því að styðja við hagsmunabaráttu hennar og sýna málefnum hreyfingarinnar ætíð áhuga og velvilja.

Alfreð lætur eftir sig eiginkonu, Guðnýju Kristjánsdóttur, dæturnar Lilju Dögg og Lindu Rós og þrjú barnabörn.

ÍSÍ vottar fjölskyldunni allri, sem og öðrum aðstandendum, innilega samúð vegna fráfalls Alfreðs.