Hlaupum saman
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ verður haldið þann 13. júní 2020. Nú er hægt að kaupa miða í hlaupið með Kvennahlaupsbol eða kaupa miða án þess að kaupa bol.
Á þessum tímum er mikilvægt sem aldrei fyrr að hlúa að heilsunni og rækta sambandið við vini okkar og vandamenn. Það er okkur því mikið ánægjuefni að geta haldið Kvennahlaupið 2020 þann 13. júní og þannig gefið öllum þeim konum sem vilja hlaupa saman kost á því. Settum reglum um fjarlægðamörk og fjölda verður vandlega fylgt á öllum hlaupastöðum. Nánari upplýsingar um framkvæmd hlaupsins, hlaupastaði og tímasetningar verða settar inn á allra næstu dögum.
Kvennahlaupsbolurinn 2020
Kvennahlaupsbolurinn var afhjúpaður 22. maí í beinni útsendingu á Facebook. Bolurinn hefur verið ómissandi hluti af hlaupinu undanfarin ár en nú hefur hugsunin á bak við hann verið endurskoðuð í takt við breytta tíma. Það er Linda Árnadóttir fatahönnuður og eigandi Scintilla sem hannar bolinn í ár en hann er 100% endurunninn, úr lífrænni bómull og endurunnu plasti. Bolurinn hentar bæði sem hlaupa- og æfingaflík en einnig við fleiri tilefni og því hægt að nýta hann enn betur en áður.
Bolurinn kemur í stærðum 4-6 ára, 7-8 ára, 9-10 ára, 11-12 ára, XS, S, M, L, XL, XXL og XXXL. Hægt er að panta bol á tix.is og fá hann annað hvort sendan í póstkröfu eða sækja á skrifstofu ÍSÍ við Engjaveg 6, 104 Reykjavík.
Athugið að eingöngu verður hægt að kaupa bolinn í ár á tix.is en ekki á hlaupastöðunum. Einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu ÍSÍ í s.514 4000 og panta bolinn.
ÍSÍ vekur athygli á því að hægt er að kaupa miða í Kvennahlaupið á tix.is án þess að kaupa bol. Þá er t.d. tilvalið að nýta gamlan Kvennahlaupsbol til að hlaupa í aftur.
Á myndunum með fréttinni má sjá eftirfarandi konur í mismunandi stærðum af bolum:
- Donna Cruz í Kvennhlaups bol í stærð S
- Eliza Reid í Kvennahlaupsbol í stærð M
- Andrea Jónsdóttir í Kvennahlaupsbol í stærð XL
- Margrét Erla Maack í Kvennahlaupsbol í stær XXL
Kvennahlaup í yfir 30 ár
Fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990. Upphaflega var markmið hlaupsins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, íslenskar íþróttakonur eru að ná frábærum árangri á heimsvísu og margar konur í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna hérlendis. Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum.
Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn.
Hlaupið um allt land og allan heim
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ er alla jafna haldið á yfir 80 stöðum á landinu. Fjölmennasta hlaupið er haldið í Garðabæ og einnig fer stórt hlaup fram í Mosfellsbæ. Á landsbyggðinni fara einnig fram fjölmenn hlaup sem skipulögð eru af öflugum konum í hverju bæjarfélagi fyrir sig. Íslenskar konur sem eru búsettar erlendis hafa einnig tekið sig til og haldið Kvennhlaup víða um heim, í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg, Mallorca, Bandaríkjunum, Mósambík og Namibíu.
Hlaupastaði 2020 má sjá hér á vefsíðu Sjóvá Kvennahlaups ÍSÍ.
Allar á sínum forsendum
Konur á öllum aldri taka þátt í Kvennahlaupinu, allt frá litlum stelpum í kerrum til langamma þeirra. Hver kona tekur þátt á sínum forsendum og allir eiga að geta fundið vegalengd við sitt hæfi. Það er því engin tímataka í hlaupinu heldur lögð áhersla á að hver komi í mark á sínum hraða, með bros á vör.