Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Forseti EOC látinn

03.06.2020

Forseti Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC), Janez Kocijančič er látinn eftir snarpa baráttu við krabbamein, 78 ára að aldri. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.

Janez var kjörinn forseti EOC í nóvember 2017 eftir að hafa gegnt embætti varaforseta um fjögurra ára skeið. Hann var meðlimur í stjórn EOC frá árinu 2005, var formaður Ólympíunefndar Slóveníu 1991-2014, formaður Skíðasambands Slóveníu 1974-1984, formaður Skíðasambands Júgóslavíu 1984-1988 og varaforseti Alþjóðaskíðasambandsins frá árinu 2010. Janez var einnig varaforseti Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC), fyrir Evrópu. Janez var lögfræðingur og átti farsælan feril bæði í viðskiptum og stjórnmálum. Hann var meðal annars þingmaður í slóvenska þinginu árin 1982-1987.

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem situr í stjórn EOC, minnist forsetans með hlýju og segir hann hafa unnið einstaklega gott og mikið starf í þágu íþrótta í Evrópu:

„Janez vann einstaklega vel að hagsmunum álfunnar, meðal annars á vettvangi Heimssambands Ólympíunefnda (ANOC) og vildi framgang íþrótta í Evrópu sem mestan. Janez var virtur í íþróttasamfélaginu enda með einstakan leiðtogaferil að baki, bæði í heimalandi sínu Slóveníu sem og í alþjóðasamböndum íþrótta. Hans verður saknað af samferðarfólki hans um alla Evrópu.“