Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

11 mánuðir til Ólympíuleika

23.08.2020

Í dag eru 11 mánuðir þangað til setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó fer fram þann 23. júlí 2021. Leikarnir standa yfir í rúmar tvær vikur og lýkur með lokahátíð þann 8. ágúst.

Leikarnir áttu að hefjast þann 24. júlí 2020, en þeim var frestað um eitt ár vegna ástandsins í heiminum sökum Covid-19. Í nýlegri fréttatilkynningu frá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC) segir að aðstæður til keppni haldist eins, þeir 43 leikvangar sem notaðir verða til keppni eru þeir sömu og dagskrá er sú sama. Thomas Bach, forseti IOC, segir í fréttatilkynningunni að endurskipulagning leikanna sé mikil vinna fyrir alla hagsmunaaðila, IOC og skipulagsnefnd leikanna. Nú sé eitt ár til leika og það verði allir að standa saman til þess að klára þetta verkefni á sem farsælastan hátt. Markmiðið sé að leikarnir verði hátíð einingar og samstöðu mannkynsins og tákn um seiglu og von og að við öll séum sterkari þegar að við tökum höndum saman. Í dag fer af stað herferðin #StrongerTogether á vegum IOC, en henni er einmitt ætlað að sýna sameiningartákn íþrótta og þá sérstaklega Ólympíuleikanna. Viðburður fer fram á Ólympíuleikvanginum í Tókýó í dag og myndband um samstöðu sýnt um heim allan til stuðnings íþróttafólki sem stefnir á Ólympíuleikana. Myndbandið má sjá hér

Íslenski hópurinn sem tekur þátt í Ólympíuleikunum í Tókýó mun gista í bænum Tama City Tokyo og æfa í Kokushikan háskólanum í aðdraganda leikanna. Tama City Tokyo er sveitarfélag í vesturhluta Tokyo svæðisins, en um 150 þúsund manns búa þar og er sveitarfélagið 21 ferkílómeter að stærð. Nokkrir stórir háskólar eru staðsettir innan sveitarfélagsins og er Kokushikan háskólinn einn af þeim stærri. Ágætis íþróttaaðstaða er í borginni og á háskólasvæðinu og nálægð borgarinnar við mannvirki Ólympíuleikanna gefur íslenska hópnum fjölmörg tækifæri til þess að bæta enn frekar undirbúning og aðlögun. Einn íslenskur íþróttamaður hefur tryggt sitt sæti inn á Ólympíuleikana í Tókýó og er það sundmaðurinn Anton Sveinn McKee. Enn er möguleiki á því að ná sæti á leikana, en það er mismunandi eftir íþróttagreinum hvernig hægt er að ná inn. 

Vefsíða leikanna

Á vefsíðu leikanna hér má sjá síðu tileinkaða erlendum gestum. Áhugasamir geta séð ýmsar hagnýtar upplýsingar um Tókýó, ferðatilhögun, miðamál og fleira.

Sjá má íþróttagreinarnar sem keppt verður í hér og dagskrá leikanna má sjá hér