Ólympíuleikum ungmenna frestað
Alþjóðaólympíunefndin (IOC) og skipulagsnefnd Ólympíuleika ungmenna í Senegal gáfu þá tilkynningu út á dögunum að leikunum yrði frestað um fjögur ár. Ólympíuleikar ungmenna áttu að fara fram í Senegal frá 22. október til 9. nóvember árið 2022 en þeim hefur nú verið frestað til 2026. Leikarnir munu marka tímamót hjá álfunni Afríku, því álfan mun í fyrsta sinn í sögunni verða gestgjafi ólympísks viðburðar á vegum Alþjóðaólympíunefndarinnar. Líklegt er að Ólympíuleikar ungmenna fari fram á svipuðum tíma árs og stóð til, en þann 1. nóvember ár hvert fer afríski æskulýðsdagurinn fram sem er mikilvæg dagsetning í dagatali álfunnar. Framtíðarmarkmið Senegal er að auka þátttöku ungs fólks í Senegal í íþróttum og eru leikarnir mikilvægt skref í þá átt.