Ólympíuhlaup ÍSÍ vekur alltaf lukku
Ólympíuhlaup ÍSÍ 2020 var sett í Grunnskóla Grundarfjarðar í morgun í ágætu haustveðri.
Blossi lukkudýr Smáþjóðaleikanna 2015 sá um upphitun fyrir hlaupið, en það er orðinn árviss viðburður og vekur alltaf lukku sérstaklega hjá yngstu nemendunum. Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ ræsti hlaupið eftir að hafa fært Sigurði Gísla Guðjónssyni skólastjóra skólans bolta, sippu- og snúsnúbönd að gjöf frá ÍSÍ. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðar kom og heilsaði upp á gesti og krakkana áður en hlaupið hófst. Að hlaupi loknu gátu krakkarnir gætt sér á léttmjólk í boði Mjólkursamsölunnar.
Með Ólympíuhlaupi ÍSÍ er leitast við að hvetja nemendur grunnskóla á Íslandi til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur geta valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri, hversu margir tóku þátt og hversu langt var hlaupið.
Hlaupið er styrkt af verkefninu Íþróttavika Evrópu og verða nöfn þriggja þátttökuskóla, sem ljúka hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ, dregin út úr potti. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 10. október geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið sent viðurkenningaskjal, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2020.
Skráning fer fram hér á vefsíðu ÍSÍ.