Göngum í skólann 2020
Göngum í skólann fer fram um allt land þessa dagana. ÍSÍ hvetur starfsfólk skóla, foreldra og nemendur til að tileinka sér virkan ferðamáta til og frá skóla strax í upphafi skólaárs. Skráning í Göngum í skólann er í fullum gangi en nú þegar hafa 73 skólar skráð sig til þátttöku í verkefninu. Hægt er að skrá skólann til þátttöku hér á vefsíðu verkefnisins þar til 7. október sem er alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn.
Víkurskóli - Vík í Mýrdal sendi ÍSÍ frásögn nýlega frá því hvernig verkefnið fór af stað: „Í Víkurskóla er heilmikill áhugi á verkefninu. Verkefnið var formlega sett af stað með viðhöfn. Allir nemendur skólans hittust á sal og síðan var fáni Heilsueflandi grunnskóla dregin að húni í fyrsta skipti. Að því loknu var íþróttastöðvafjör í íþróttahúsin. Skólinn þjónar bæði nemendum úr dreifbýli og þéttbýli þannig að sumir koma með skólabíl. Einn nemandi gerði sér lítið fyrir og gekk í skólann 10 km leið á öðrum degi verkefnisins! Hann heitir Egill Atlason og er nemandi í 9. bekk. Allir bekkir fara í auka 20 mínútna hreyfingu þrisvar í viku. Í dag er útivistardagur og allir bekkir fóru í berjaferð í Hafursey sem er fjall fyrir neðan Mýrdalsjökul“.
Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta og hjólabretti. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.