Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ávinningur fyrir íþróttahreyfinguna

06.10.2020

Þann 1. október sl. var nýtt fjárlagafrumvarp lagt fram á Alþingi, samhliða fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025. Hér má sjá fjárlög fyrir árið 2021.

Með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 er haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var með fyrstu viðbrögðum við efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar: Að verja lífskjör og veita viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að markmiðið er að stuðla að hagfelldara skattalegu umhverfi félagasamtaka og félaga í þriðja geiranum sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Byggt er á tillögum starfshóps um skattalegt umhverfi þriðja geirans, sem skilaði af sér endanlegri skýrslu þann 29. janúar 2020. Í hópnum sátu þau Willum Þór Þórsson, sem var formaður nefndarinnar, Börkur Arnarson, Guðrún Inga Sívertsen, Guðrún Ögmundsdóttir, Helga Jónsdóttir og Óli Björn Kárason.

Sérstakt frumvarp verður lagt fyrir er snýr að útfærslu breytinganna en vinnuhópurinn lagði m.a. áherslu á í tillögum sínum stuðning við byggingarframkvæmdir og þá nýbreytni að einstaklingar jafnt sem lögaðilar geti fengið skattaafslátt vegna gjafa til félaga sem starfa innan þriðja geirans. Ávinningurinn sem felst í þessu fyrir íþróttahreyfinguna yrði mikill.

Guðrún Inga Sívertsen segir mikil tækifæri falin í nýjum fjárlögum fyrir íþróttafélög landsins og þá sérstaklega varðandi skattaafsláttinn til einstaklinga. „Aukinn stuðningur við þennan málaflokk á þessum tímum sem við erum að upplifa er afar mikilvægur. Öflugt íþróttastarf fyrir börn og unglinga hefur sjaldan verið eins mikilvægt og núna“, segir Guðrún Inga.