Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Íþróttastarf iðkenda fæddum 2004 og fyrr hefst 26. október

24.10.2020


Í dag laugardaginn 24. október áttu fulltrúar almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins fund með ÍSÍ, sérsamböndum ÍSÍ,  Íþróttabandalagi Reykjavíkur, Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, Ungmennasambandi Kjalarnesþings og fulltrúum fyrir hönd sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. 

Á fundinum var kynnt ákvörðun sviðsstjóra íþrótta og tómstundasviða sveitarfélaganna og almannavarna á höfuðborgarsvæðinu að æfingar iðkenda fæddum 2004 og fyrr geti hafist í íþróttamannvirkjum á vegum sveitarfélaganna og íþróttafélaganna mánudaginn 26. október n.k. Fréttatilkynningu almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins má sjá hér. Áður hafði verið gefin heimild fyrir meistaraflokka og afrekshópa/fólk til að hefja æfingar í mannvirkjum á vegum sveitarfélaganna. Líkt og með fyrri tilslökun ákveður hvert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hvenær starf getur hafist í mannvirkjunum. Taka þarf tillit til aukins fjölda iðkenda/hópa í samstarfi við starfsfólk mannvirkjanna og í samræmi við strangar sóttvarnareglur ÍSÍ, sérsambandanna, reglugerðir heilbrigðisráðherra og fyrirmæli sóttvarnalæknis.

Áfram gilda þau skilyrði sem reglugerð heilbrigðisráðherra frá 19. október segir til um vegna íþróttastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu og fram kemur í bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar. Í reglugerðinni kemur m.a. fram að íþróttastarfsemi sé óheimil ef: -hún krefst snertingar, -ef hætta er á snertingu milli fólks við iðkun, - ef starfsemin krefst mikillar nálægðar, -þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér. Gæta skal vel að  nálægðartakmörkum, fjöldatakmörkum, sótthreinsun og almennum persónubundnum sóttvörnum. 

Stefnt er að því að íþróttastarf barna og ungmenna fæddum 2005 og síðar geti hafist 3. nóvember n.k. á höfuðborgarsvæðinu. Næsta vika fer í áframhaldandi vinnu við aðlögun þessa starfs miðað við þær reglur sem nú eru í gildi en vonandi verður búið að létta á þeim takmörkunum sem gilda á höfuðborgarsvæðinu áður en til þess kemur. 

Það er fagnaðarefni að unnt sé að hefja æfingar hjá iðkendum fæddum 2004 og fyrr í íþróttamannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu, þó með takmörkunum sé. ÍSÍ vill árétta að mjög mikilvægt er að íþróttahreyfingin fari að sóttvarnarreglum sérsambandanna sem ætlað er að sporna við útbreiðslu veirunnar. Rétt er að hafa í huga að útbreiðsla veirunnar er í miklum vexti í löndunum allt í kringum okkur.