Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
17

Íðorðasafn um íþróttir

16.11.2020

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hlaut fyrr á árinu styrk úr Málræktarsjóði til að koma upp íðorðasafni um íþróttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er miðstöð íðorðastarfs á Íslandi og þar er að finna fjölbreytt fagorðasöfn en ekkert um íþróttir. Úr því er verið að bæta og fékk ÍSÍ til liðs við sig Gísla Ásgeirsson þýðanda, sem býr ekki einungis yfir afburða þekkingu á íslenskri tungu heldur þekkir íþróttahreyfinguna eftir að hafa komið að fjölbreyttum verkefnum innan vébanda ÍSÍ í gegnum tíðina.

Það er von ÍSÍ að verkefnið geti stuðlað að aukinni málrækt og veiti einstakt tækifæri til að skrá öll íslensk fagorð íþrótta í einn íðorðabanka sem verður aðgengilegur öllum á vef Árnastofnunar.

Eitt af hlutverkum orðabanka er að samræma orðanotkun innan skyldra og óskyldra greina. Hann á að safna fræðiheitum og sameina þau þannig að ekki séu á kreiki mörg heiti um sama fyrirbærið. Íðorðabankar geta gagnast vel öllum þeim sem fjalla um sérfræðileg efni, þýðendum, kennurum, nemendum, fjölmiðlafólki, opinberum stofnunum, fyrirtækjum svo og hvers kyns áhugafólki.

Sérsambönd ÍSÍ hafa mörg hver sent inn lista með fagorðum úr sínum greinum á ordabok@isi.is. Söfnun íðorða er lifandi verkefni en vonast er til að þetta átak skili þeim árangri að íþróttahreyfingin eigi góðan orðabanka um starfsemina.

Hér er vefslóðin á íðorðabanka Árnastofnunar.