Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
12

Haukur Gunnarsson útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ

29.12.2020

Haukur Gunnarsson frjálsíþróttamaður var í kvöld tuttugasti einstaklingurinn sem er útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti útnefninguna einróma á fundi sínum 10. desember sl. Afhending viðurkenningarinnar fór fram í beinni útsendingu RÚV þar sem úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2020 voru tilkynnt.

Haukur Gunnarsson fæddist 20. október árið 1966. Hann hneigðist snemma til íþrótta og stundaði fótbolta af kappi sem barn. Þegar hann var þriggja ára gamall greindist hann með spastíska lömun á allri vinstri hlið líkamans. Þegar fótboltaferlinum lauk hóf Haukur að stunda spretthlaup hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík. Reyndar þurfti Arnór Pétursson, þáverandi formaður ÍFR, að ganga á eftir Hauki til að fá hann á hlaupabrautina. Það tókst á endanum og reyndist það heldur betur happadrjúg ákvörðun.

Það var á hlaupabrautinni sem frægðarsól Hauks reis sem hæst. Hann vann til tvennra bronsverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra árið 1984, í 200 metra og 400 metra hlaupi, þá aðeins 17 ára gamall. Fjórum árum síðar mætti Haukur reynslunni ríkari á Ólympíumótið í Seoul 1988. Þar sigraði hann í 100 metra hlaupi í flokki C7 og varð fyrstur Íslendinga til að vinna til gullverðlauna í spretthlaupi. Haukur keppti á fernum Ólympíumótum og vann alls eitt gull og fimm bronsverðlaun og setti tvívegis heimsmet. Hann lagði keppnisskóna á hilluna að loknu Ólympíumóti fatlaðra í Atlanta árið 1996.

Það var  Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ sem afhenti Hauki viðurkenninguna.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Hauk Gunnarsson í Heiðurshöll ÍSÍ.

Haukur Gunnarsson - Heiðurshöll ÍSÍ